Brúni klárinn

Einu sinni komu tveir góðkunningjar Eiríks prests til hans. Þeir komu sunnan úr Grindavík og ætluðu heim til sín austur í Flóa, en voru gangandi. Þeir sögðu við Eirík að nú væri gott að hafa hest til að hvíla sig á. Eiríkur sagði að hann ætti brúnan klár fyrir austan túnið og mættu þeir taka hann; þeim væri óhætt að tvímenna á klárnum því hann væri sinaseigur þó hann sýndist ekki svo feitur. Sagði hann að þeir skyldu sleppa klárnum við Ölfusá og hirða ekki meira um hann því gamli Brúnn mundi skila sér sjálfur. Þeir þökkuðu presti innilega fyrir greiðann og fóru síðan. Fundu þeir hestinn og var hann ósköp magur. Þeir fóru samt á bak honum báðir. Hljóp þá klárinn á stað og það svo hart að yfir þá gekk og voru þeir fyrr komnir austur að ánni en þeir hefðu getað vænzt eftir á beztu hestum því þeir vissu varla af sér á leiðinni; svo var hesturinn vakur og bráðfljótur. Þeir fóru af baki við ána og létu hestinn verða þar eftir. En þegar þeir litu við aftur sáu þeir þar engan hest, heldur gamlan og skininn hrosshaus, og þóttust nú skilja hvernig Eiríkur hefði hjálpað sér með kunnáttu sinni.1


1 Margar eru missagnir um það er Eiríkur prestur á að hafa léð ferðamönnum hesta, ýmist austur í Óseyri eða út yfir ós. En þessi er ólík þeim í því að í henni er hesturinn talinn brúnn, en annars eru þeir gráir að lit sem hér segir:

Einu sinni komu tveir menn að Vogsósum er ætluðu út með sjó og beiddu séra Eirík að ljá sér hesta til að ríða yfir ósinn sem er skammt fyrir neðan túnið svo þeir þyrftu ekki að vaða. Prestur vísaði þeim á tvo hesta gráa fyrir utan túnið (Selvogsmenn segja að hestarnir hafi átt að standa á húsabaki og hnýtt upp í þá snæri), en tók þeim vara fyrir að slá í þá; sagði hann að þeir mættu ekki einungis ríða þeim út yfir ósinn, heldur og út yfir sand, og sleppa þeim þar. Tóku svo mennirnir hestana og riðu þeim eins og ætlað var. En nú fer tvennum sögnum; því dr. Maurer segir svo frá (Isl. Volkss., 161. bls.) eftir séra Sveinbirni Guðmundssyni í Móum að þegar þeir voru komnir út í ósinn á hestunum þóttu þeim þeir seinvæðari en þeir vildu, en mundu ekki eftir viðvörun prests og slógu í þá. Í sama bili urðu hestarnir undir þeim sinn að hvoru hrossrifi, en mennirnir stóðu sjálfir í vatninu eins og það var djúpt til. En séra Skúli Gíslason segir að þegar menn þessir hafi sleppt hestunum hafi annar þeirra í athugaleysi slegið í lendina á öðrum; hafi hann þá þegar horfið, en skininn hrosskjálki hafi legið fyrir fótum mannsins. Selvogsmenn geta þess ekki heldur en séra Magnús Grímsson að Eiríkur hafi varað mennina við að slá í hestana, en þegar þeir hafi leyst út úr þeim hafi þeir ekki séð neina hesta, heldur aðeins eitthvert hrossbein.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 555–556.

© Tim Stridmann