Dagsverkið

Þegar búið var að vígja síra Eirík að Vogsósum og hann er kominn þangað fer hann að fletta upp máldögum kirkjunnar og sér að margir þar eiga að gjalda sér dagsverk og þar á meðal ekkja ein, Málfríður á Ertu. Einu sinni um sumarið segir síra Eiríkur við hana að hún eigi að gjalda sér dagsverk. Hún sagðist vita það, en hún sagðist nú vera orðin sjálf ónýt að vinna, en hún sagðist eiga dóttur er Kristín héti sem hún sagðist skyldi senda í dagsverk til hans. Það sagði hann að sér þækti vænt um, þar hann hefði fáar vinnukonur. Málfríður sagði sér litist ekki svo á vinnumenn hans að þeir væru duglegir sláttumenn og sagði það mundi vera betra fyrir hann sjálfan að slá og láta hana raka eftir sér. Það segist hann skuli gjöra. Nú fer konan í burtu og nú líður nokkur tími.

Einu sinni um sumarið gengu rigningar nokkurn tíma. Einn morgun er presti sagt að úti standi stúlka sem komi í dagsverk. Hann skipar að segja henni að koma inn. Hún gjörir það og hann spyr hana að nafni. Hún segist Kristín heita og dóttir Málfríðar. Hún var mikið skikkanleg stúlka að sjá og fálát. Hann segir vinnumönnum sínum sem voru fimm að fara að slá og segir henni að hún skuli raka eftir þeim. Hún gjörir það. En eftir nokkurn tíma sendir hann dreng upp í slægjuna til að vita hvernig gangi, en drengur segir aftur að Kristín sitji og hafi ekkert að raka. Hann gengur þá út og tekur orf sitt og gengur upp í slægjuna og segir við Kristínu: „Þú hefur ekkert að raka?“ Hún segir það vera. Síðan fer hann að slá og herðir sig, en það dugar ekki heldur; hún hefur ekkert að raka fyrir því og situr öðru hvoru. Þá sér prestur að það dugar ekki og segist hann því þurfa að fara heim til að klappa hjá sér. Kristín heldur honum sé þess þörf. Síðan fer prestur heim, en þá finnur hann hvergi smiðjuna, en eftir að hann er lengi búinn að leita finnur hann hana og klappar hjá sér og kemur síðan upp í slægjuna. En þá finnur hann hvergi orfið sitt og leitar lengi, en á endanum finnur hann það og byrjar nú að slá og herðir sig og eins hinir fimm vinnumenn hans. En það fer á sömu leið að hún situr öðru hvoru. Nú er kominn matmálstími og er stúlkan kölluð heim að borða og fer hún, en á meðan er hann og þeir að slá og herða sig á allan hátt. Þegar hún kemur aftur finnur hún hrífuskaftið, en hvergi höfuðið af hrífunni. Hún fer heim með skaftið og kemur aftur með hrífu og nú fer á sömu leið að hún situr oftast. Þá segir síra Eiríkur: „Nú skulum við hætta Kristín því ég hef nú fengið mig fullreyndan.“ En síðan héldu vinnumennirnir áfram að slá, en síra Eiríkur hætti og hún rakaði eftir þeim og þá gekk raksturinn náttúrlega.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 500.

© Tim Stridmann