Hólgangan

Einu sinni bað unglingsmaður séra Eirík að lofa sér að fara með honum eitt laugardagskvöld [er prestur hvarf frá bænum]. Prestur skoraðist lengi undan því og sagði hann mundi ekki hafa mikil not af því. Maðurinn sótti því fastar á og hét Eiríkur loksins að verða við bón hans einhvern tíma.

Nokkru síðar fer prestur og tekur manninn með sér. Þá var veður fagurt og bjart. Þeir gengu út á túnið að hól einum. Prestur slær sprota á hólinn. Lýkst hann þá upp og kemur þar út kona roskin. Hún heilsaði Eiríki kompanlega og bauð honum inn. Þar kom og út stúlka ungleg og bauð hún fylgdarmanni prests inn. Þeir gjörðu svo og komu í baðstofu. Hún var byggð á palli og sat þar fjöldi manna allt í kring. Þeir Eiríkur sátu yztir við dyr öðrumegin og Eiríkur þó innar. Enginn talaði hér orð frá munni og þótti fylgdarmanni prests það kynlegt. Konurnar gengu út báðar og komu inn aftur að lítilli stundu liðinni. Höfðu þær þá hníf og trog í hendi sér og gengu að hinum yzta manni hinumegin við dyrnar. Tóku þær hann og lögðu niður við trogið og skáru hann í það eins og kind. Síðan tóku þær þann næsta og svo hvern að öðrum eftir röðinni og fór allt á sömu leið. Enginn reyndi til að verja sig og allir þögðu. Ekki sást það á Eiríki að hann kippti sér upp við þetta, en nóg þótti fylgdarmanni hans um. Sá hann að þær mundu ekki ætla að hætta, kvensurnar, fyrr en allir væru skornir því þegar þær komu að Eiríki tóku þær hann og skáru eins og hina. Þá æpti maðurinn upp, tók til fótanna, hljóp á dyr og komst út. Hljóp hann þá heim til bæjarins og þóttist eiga fótum fjör að launa. En þegar hann kom að bæjardyrum stóð Eiríkur prestur í dyrunum og studdi höndum á dyradróttina. Hann brosti við þegar hann sá manninn og segir: „Því hleypur þú svona ákaflega heillin?“ Maðurinn vissi ekkert hvað hann átti að segja því nú skammaðist hann sín af því hann sá nú að prestur mundi hafa gjört sér sjónhverfingu. Þá segir Eiríkur: „Ég hugsaði það alténd heillin góð að þú mundir ekki mega sjá neitt.“

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 547–548.

© Tim Stridmann