Eiríkur krafinn kaupstaðarskuldar

Hafnarfjarðarkaupmenn sendu Eiríki presti eitt sinn klögunarbréf og báðu hann koma og borga 80 ríkisdali er hann hefði lengi verið skuldugur um. Nú var hann í vanda staddur því hann átti ekkert til að borga með. Hann reið þó suður og finnur kaupmenn og spyr hvurnig á því standi að hann sé skuldugur. Þeir báðu hann sjá það í bókinni. Hann tók við og leit á og mælti: „Ég sé það ekki heillin góð; ég sé svo illa; ég verð að fara út að glugganum.“ Þeir lofa það. Hann víkur sér frá þeim og að glugganum og horfir á bókina um stund og mælti síðan: „Jafnt er sem ég vissi, ég á hér inni 80 ríkisdali, en er ekki í neinni skuld. Nú skal klaga ykkur fyrir lygina eða þið megið bæta.“ Þeir líta á bókina og bregður í brún er þeir sjá að bókstafirnir hafa snúizt í dálkunum og segir prestur nú satt. Þeir óttuðust og buðu honum 100 ríkisdali að klaga þá ekki. Hann játar því og síðan gaf hann þeim upp helming alls þessa.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 562.

© Tim Stridmann