Einu sinni rak löngu á fjöru Selvogsmanna. Þeir tóku þá saman ráð sín og vildu reyna kunnáttusemi Eiríks prests, hvort ekki mætti villa honum sjónir. Þeir fóru þá til hans og sögðu að ein sveitarkerlingin sín væri dáin og báðu hann að syngja yfir henni. Hann tók því vel. Smíðuðu þeir þá líkkistu og létu þar í lönguna og bjuggu um eins og vant er að búa um lík. Fluttu þeir síðan kistuna heim að Strandarkirkju og tóku gröfina. Nú kom prestur og ætlaði að tala nokkur orð yfir kistunni áður en hún væri borin út úr kirkjunni. En þegar hann hafði talað fáein orð snýr hann sér að líkmönnunum og segir:
„Sæðið er af söltum sjó,
sálina finn ég hvergi;
er það langa yfrið mjó,
engin sveitarkerling dó.“
Sneri hann þá frá og varð ekki meira af líksöngnum, en bændur fóru heim aftur. Þóttust þeir nú vissari eftir en áður um það að Eiríki presti þyrfti ekki allt að segja.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 564–565.