Missögn af Jóni sterka

Í eina tíð var kaupmaður nokkur í Keflavík; um nafn hans er ekki getið; hann hélt vinnumann (assistent) er Jón hét. Einu sinni ferðuðust þeir báðir inn í Reykjavík; þar var þá nýkomið útlenzkt skip á höfnina; þeir sáu hvar skipherra gekk upp bryggju með mjög mikinn kassa í fanginu. Þeir gengu á móti honum og kvöddu hann; hann tók því og mælti: „Hver Íslendinga mun vera svo hraustur að afli að hann beri kassa þenna eins hraustlega og ég?“ Jón var mjög hraustur maður svo fáir vissu hans afl; hann tók við kassanum og bar hann mikið léttilegar en skipherra. Af þessu reiddist skipherra og sagðist skyldi senda Jóni pilt næsta sumar til að glíma við. Jón tók því ekki fjærri ef það væri mennskur maður.

Skömmum tíma hér eftir fór Jón til síra Eiríks í Vogshúsum1 og sagði honum frá því er gjörzt hafði og bað hann liðs. Síra Eiríkur sagði að skipherra myndi senda honum einn hinn versta blámann til að glíma við og tók það til bragðs að hann vafði blautum skinnum utan um Jón hátt og lágt svo hvergi varð hendi á fest. Síðan gekk Jón til Reykjavíkur. Var þá skipherra þar fyrir með einn mikinn blámann og hleypti honum þegar að Jóni. Jón tók hraustlega á móti og færðist leikurinn að miklum steini; Jón hljóp öfugur yfir steininn svo blámaður datt áfram ofan á steininn og gekk Jón þar af blámanni dauðum.

Nú þótti skipherra ekki betur fara og hét Jóni að senda honum rakka sinn til viðureignar. Jón lét það svo vera, en fór til síra Eiríks og sagði honum frá þessu og bað hann leggja sér ráð. Síra Eiríkur sagði að það myndi ekki verða hundur er skipherra sendi, heldur bjarndýr, og fékk Jóni langa stöng með miklum broddi framan í öðrum endanum. Síðan fór Jón til Reykjavíkur; var þar þá skipherra fyrir og hélt í mikið bjarndýr og otaði því þegar að Jóni. Jón varð fljótari til og lagði bjarndýrið í gegn með stönginni; féll það þá dautt niður.

Að því búnu gekk skipherra til Jóns og bað hann með blíðum orðum að koma með sér út á skip. Jón gjörði svo og leiddi stýrimaður hann ofan í káettu, lauk þar upp kistu og tók upp úr henni miklu stærri bók en Jón hafði nokkurn tíma áður séð, sýndi Jóni hana og sagði að hann skyldi útvega sér aðra eins og hafa mikinn peningasjóð í staðinn; en ef hann gæti það ekki skyldi það kosta líf hans. Jón hugði vandlega að bókinni, en þekkti þá engan staf á henni. Því næst fór Jón til síra Eiríks og sagði honum frá öllum viðskiptum þeirra. Síra Eiríkur sýndi honum allar þær bækur er hann hafði og var engin lík. Síðan myndaði síra Eiríkur stafi og spurði Jón hvert þeir myndu vera líkir þeim er á bókinni voru. Hann kvað svo vera. Síra Eiríkur sagði að þá vandaðist málið og sagði að þær bækur væru ekki nema tvær til í heimi og ætti prófasturinn sinn í undirheimi aðra og væri hún ófáanleg, en samt myndi verða að reyna, og kvaðst myndi veita Jóni það lið er hann gæti.

Síðan ritaði hann prófastinum bréf og sagði Jóni að fara með það, en fékk honum knýtiskorn nokkuð rautt og sagði það myndi velta á undan honum, en hann skyldi halda í endann á því allt þar til er hann kæmi að húsi miklu. „Þar skalt þú berja á dyr,“ sagði séra Eiríkur; „þá mun koma út kona; henni skalt þú fá bréfið, en varast skalt þú að yrða á hana að fyrra bragði.“

Jón fylgdi dyggilega öllu því er síra Eiríkur lagði fyrir hann og fylgdi knýtinu eftir þar til er það nam staðar við dyr á húsi miklu. En það var nær veturnóttum. Jón drap á dyr og að vörmu spori kom fríð og fagurlega búin kona til dyra og tók við bréfinu af Jóni og leiddi hann í stofu er uppljómuð var af gulli og gimsteinum. Síðan vísaði hún honum til prýðilegrar rekkju. En er Jón var í rekkju kominn lagðist konan upp í hvíluna hjá honum og sváfu þau þar saman um langan tíma.

Eitt sinn snemma að morgni dags yrti konan í fyrsta sinni á Jón og spurði hann hvert honum þætti ekki komið mál til að afljúka erindunum. „Nú er,“ sagði hún, „sumardagur fyrsti og hefur þú hér dvalið í allan vetur. Nú ef þú vilt fylgja mínum ráðum munum við ganga fyrir prófastinn er bréfið var til; ég hef fyrir löngu fengið honum það; hann er faðir minn; ég mun ganga fyrir, en þú á eftir.“

Hún kvaddi föður sinn blíðlega. Hann tók því vel og spurði hana hvað það væri er á baki hennar stæði. Hún sagði að þar væri vetrartökumaður sinn er hefði komið með bréfið frá síra Eiríki. Hann mælti: „Viltú nokkuð láta greiða hans erindi?“ Hún kvað svo vera og bað hann með blíðum orðum að láta hann fá bókina. Hann kvaðst aldrei hafa ætlað að láta hana sér úr hendi. En hún kvað líf hans liggja við. Síðan gekk Jón fram og kvaddi prófast virðulega og bar honum kveðju síra Eiríks. Prófastur sagði: „Guð blessi þann góða mann; það er nú ekki langt síðan við fundustum.“

Síðan fékk prófastur Jóni bókina og bað hann vel fara. Konan fylgdi Jóni til dyra og óskaði honum til lukku. Jón tók leiðtoga sinn og komst svo til síra Eiríks. Síra Eiríkur sagði: „Nú skalt þú fara með bókina til Reykjavíkur því skipherrann liggur þar á höfninni; þú skalt,“ sagði síra Eiríkur, „fá þér langa tréspíru, ganga fram á bryggjusporð og rétta stýrimanni bókina á spírunni og taka við fésjóðnum á hana aftur, ganga síðan hvatlega upp af bryggjunni og líta ekki til baka fyrr en þú stígur á jörð.“

Jón gjörði svo; en er hann var búinn að þessu og kominn upp af bryggjunni heyrði hann mikinn brest; og er hann leit við sá hann skipið ekki, en í stað þess var mikill eldslogi þar er skipið var. Jón fór til síra Eiríks og spurði hann hvað valda myndi. Síra Eiríkur sagði að þegar bækurnar hefðu komið hver við aðra hefði kviknað í skipinu, því þær hefðu þá náttúru að þær mættu aldrei koma hver við aðra og nú væri prófasturinn í undirheimum búinn að ná þeim báðum og kynni vel að varðveita þær. Jón þótti hafa verið hinn mesti lánsmaður, og lýkur svo þessari sögu.


1 Vogshúsum — так напечатано в новом издании в соответствии с рукописью Lbs 532 4to (f. 127r), из которой взят этот текст: Voxhúsum. Так же в рукописи Lbs 530 4to (f. 151r): Vogshúsum (исправлено другими чернилами на Vogsósum). В рукописях Lbs 416 8vo (f. 51v и 59v) и Lbs 532 4to (f. 194v): Vogsósum. В первом издании: Vogsósum. — Прим. Speculatorius.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 559–561.

© Tim Stridmann