Einu sinni vóru vermenn um nótt á Vogsósum og ætluðu þeir til róðra suður í Hafnir. Eiríkur mælti við þá: „Gjörið þið nú svo vel piltar mínir og lofið mér því að færa mér dálítinn bita af heilagfiski þá er þið farið aftur.“ Þeir kváðust mundu verða latir að bera það og neituðu því allir nema einn; hann sagðist ætla að bera dálítinn bita ef hann gæti, þó ekki yrði það mikið. Eiríkur þakkaði honum fyrir, víkur honum afsíðis og mælti: „Þegar þið komið austur að Herdísarvík í vor skaltú halda áfram þó þér verði sagt að ósinn sé ófær.“ Eftir þetta fara þeir og fiskaði sá mest sem lofaði að færa presti í soðið.
Þeir vóru samferða austur aftur um vorið og segir ekki af ferð þeirra fyrr en þeir koma að Herdísarvík; þar var þeim sagt að ósinn væri ófær sem satt var því leysing var. En sá sem heilagfiskið bar skeytti því ekki og hélt áfram. Hlógu þeir að honum fyrir bæði burðinn og áframhaldið. Það er af honum að segja að þá hann kemur austur á Víðasand finnur hann þar Eirík prest. Þeir heilsast og spyrjast tíðinda; maðurinn spyr hvurnig ósinn sé. Prestur spyr: „Kemur þú með nokkuð til mín?“ „Lítið er það,“ segir maðurinn. Þá mælti Eiríkur: „Gáktu á eftir mér og horfðu í bak mitt og líttu ekki af því fyrr en ég segi þér.“ Hann gjörir svo og ganga um stund þar til prestur mælti: „Líttu nú við.“ Hann leit við og sá ósinn belja í vexti miklum að baki sér, en var kominn yfir hann. Gaf hann presti þrjá fjórðunga af heilagfiski og fór leiðar sinnar; en félagar hans lágu í Herdísarvík viku áður þeir komust yfir ósinn.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 549–550.