Tyrkjar koma í Selvogi

Einu sinni var Eiríkur staddur í búð í Hafnarfirði. Hann leit út um gluggann og mælti til kaupmannsins: „Já, já, heillin góð, það eru ekki góðir gestir komnir í Selvog núna,“ hleypur út síðan og á bak og ríður austur í Selvog.

Í Selvogi var það til tíðinda að tyrkneskt skip kom þar inn undir land, og kemur bátur að landi og lendir þar sem heitir Sigurðarhúsabót. Jón hét bóndi í Sigurðarhúsum (það er fyrir austan Strönd). Jón fór til fundar við hina útlendu. Þeir taka hann og afklæða, slógu hring um hann og otuðu að honum korðum sínum, en sköðuðu hann þó ekki.

Nú tekur að hvessa og fara Tyrkjar í bátinn og sleppa Jóni. Þeir róa út á Strandarsund; þar stanza þeir um nokkra stund. Þá hefur skipið slitið upp og drífur til hafs; bátsmenn róa síðan eftir skipinu og náðu því ekki meðan til sást. Jón fer í klæði sín og litast um. Hann sér Eirík prest vera að ganga um gólf í Strandarkirkjugarði. Jón fer þangað og heilsast þeir; segir Jón Eiríki hrakning sinn. Eiríkur mælti: „Þú áttir ekki að fara til þeirra heillin góð; þú áttir ekkert erindi til þeirra. En því drápu þeir þig ekki að þeir mundu það ekki fyrr en þeir komu út á sund; þá vildu sumir snúa aftur að drepa þig, og varð það þeim til sundurþykkju og dvalar. Um síðir réðu þeir af að halda áfram, en ekki er víst þeir nái skipinu aftur. Farðu nú heim heillin góð og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra.“

Jón fór heim, en Eiríkur fer upp á Svörtubjörg og hleður þar vörðu og mælti svo fyrir að meðan sú varða stæði skyldu Tyrkjar aldrei gjöra grand í Selvogi. Þessi varða stendur enn á Svörtubjörgum og er hún hlaðin að mynd sem lambhúsgaflhlað og einhlaðin að ofanverðu úr óhentugu hleðslugrjóti; snýr flatvegur hennar eftir bjargabrúninni og er tæpt mjög. Hún er mosavaxin og lítur út fyrir að hafa staðið lengi og er þar þó vindasamt; enda hafa Tyrkjar aldrei komið í Selvog síðan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 561–562.

© Tim Stridmann