Tilberar er sagt að hafi verið mannsrif tekið og haft framan á sér til altaris og látið renna vínið úr munni sér niður um hökuklút ofan á rifið; síðan hafi það verið ofið ullargarni eins og vefjarsnakkar. Þetta verkfæri áttu konur að hafa haft til að sjúga annara kýr út um haga á sumrum með því móti að hann fór á bak þeim og hengdi sig yfir kýrnar til að [ná] spenunum.
Þegar snakkurinn var búinn að sjúga sig fullan fór hann heim með því móti að steypast á endunum og kallaði: „Fullur beli mamma!“ En hún anzaði: „Láttu lossa sonur!“ og lét hann spúa í strokkinn sundurlausu smjöri, og því er sundurlaust smjör kallað tilberasmjör. En til að varna því að tilberar sygju kýr var það ráð fundið að mjaltakonur báru hendur í krossmark yfir bak kúa þegar búið var að mjólka. Þegar einhvör kom að tilbera þá hann var [að] sjúga kýr fór hann heim og upp um kvið fóstru sinnar, kreisti hana og kvaldi til dauða.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 454–455.