Flæðarmús

Annað bragðalag er og til til að afla sér fjár sem aldrei þrjóti og fylgir því að vísu minni kynngi, en þó nokkur, en það er flæðarmúsin, og fæst hún á þann hátt sem nú segir:

Fyrst tekur maður hár af óspjallaðri mey og ríður net úr því svo smágjört að músin geti ánetjazt í því. Þetta net skal þar leggja sem maður veit af að fé er fyrir á mararbotni því flæðarmúsin á eigi að vera annarstaðar en þar sem silfur er eða gull. Netið þarf ekki að liggja nema eina nótt ef lögnin er rétt valin og er þá músin komin í það að morgni. Nú tekur maður músina og hefur heim með sér. Er hún þá látin þar sem maður ætlar að hafa hana. Segja sumir að hana skuli geyma í hveititunnu, en aðrir í stokk, og gefa henni hveiti að éta, á meyjarhári skal hún og liggja. En svo verður um að búa að ei geti hún sloppið því æ vill hún aftur í sjó. Því næst skal stela peningi og leggja hann í hárið undir músina; dregur hún svo fé úr sjó og svo stóran pening með dægri sem sá er er undir hana var lagður í öndverðu, en þann pening má aldrei taka því þá dregur hún ekki fé framar. Þess skal sá gæta er flæðarmús hefur að vera búinn annaðhvort að koma henni af sér á annan eða til sjávar áður en hann deyr því ef hann gjörir það ekki getur af því hlotizt tjón mikið. Flæðarmúsin fer þá sjálf í sjóinn er maðurinn deyr og verður af því hafrót ógurlegt. Er þá öllum þeim hætt sem á sjó eru. Þá gjörir og veður svo illt og mikið á landi að svo er sem allt ætli um koll að keyra. Eru því flæðarmúsaveður talin háskalegust og mannskæðust allra veðra og heita músarbylur.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 416–417.

© Tim Stridmann