Ærið ill þótti aðsókn Brands; er það sagt að griðkona ein fór til fjóss á bæ einum þar vestra. Sá hún þá í auðum bási höfuðkúpu af manni með kjálkunum og jórtraði (ella tuggði) sem ákaflegast. Hún varð ærið felmtsfull og hrökk í baðstofu inn. Bóndi var í rekkju genginn; heyrðist þá barið eitt högg mikið. Bóndi bað þá griðkonu að ganga til dyra og vita hver berði; lézt hún ei þora það. Bóndi spyr ef hún ætlar að láta sig þurfa að klæðast til að vitja dyranna. Heyrðist þá enn barið og skruðningar miklar um leið. Fór bóndi við það ofan og fram og voru þá fjalir allar niður hrundar er upp höfðu festar verið í bæjardyrum til lofts. Varð þar þó ei annað að meini það sinn, en þegar kom Brandur um morguninn.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 593.