Af Brandi og Kolbeini Grímssyni

Brandur bjó í Þykkvaskógi (Stóraskógi) og var Egilsson (aðrir telja Einarsson). Hann var kallaður hinn fjölkunnasti maður. Ættir eru frá honum taldar. Sagt er að margt illt ættust þeir við, hann og Kolbeinn skáld Grímsson í Lóni, því uppi væri þeir á sömu dögum, en Kolbeinn var uppi á dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti. — Telja sagnir að Brandur vekti upp kerling þá er Haukadals-Halldóra væri kölluð og svo væri hún ramefld er hann fengi henni upp komið að ei fengi hann við hana ráðið áður hann bryti lærlegg hennar. Sæist hún jafnan hölt síðan og seinfara (aðrir segja hana halta hafa verið í lífinu, svarra hinn mesta og hverjum manni hvumleiða). Sagt er Brandur sendi Kolbeini marga drauga og væri Halldóra síðust — sé af því orðtakið: „Haukadals-Halldóra höktir á eftir“; sé það úr vísu þeirri er Kolbeinn hafi kveðið er hann taldi nöfn þeirra — en öllum kom Kolbeinn þeim fyrir með kveðskap.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 591.

© Tim Stridmann