Frá skiptum Leifa og Ara í Ögri

Enn fremur segir Gísli frá nokkrum skiptum Leifa við Ara í Ögri og er sú ein saga að Ari beiddi Leifa að hreinsa skip sitt sem legið hafði klökugt og gaddfrosið og hét honum kaupi því hann hélt að vinnumenn sínir mundu skemma skipið. Þessu hét Leifi. Litlu síðar kom Ari að honum við skipið; stóð Leifi þar auðum höndum aleinn, en klakastykkin flugu víðs vegar úr skipinu. Þá sagði Leifi sem síðan er haft að máltæki: „Hægt, hægt, brjótið ekki skip fyrir Ara bónda.“ Lauk hann svo þessu verki létt og vel.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 508.

© Tim Stridmann