Tröllkonan

Norður á afrétt austanmanna var tröllskessa ein. Hún stal sauðum manna og rænti í byggðinni. Þótti mönnum hún illur gestur þar í nágrenninu og sögðu þetta Þorleifi. Þorleifur lét sem hann heyrði það ei, en nokkru síðar fór hann norður á afréttina. Gengur hann þar til er hann finnur skessuna. Þegar hún sér hann segir hún: „Ertu kominn hér Kjafta-Leifi? Leggðu ekki til mín, láttu mig vera.“ „Farðu þá burtu og kom þú hér aldrei aftur,“ segir Þorleifur. „Það skal ég gjöra,“ segir hún. „Svíkstu þá ekki um það,“ segir hann. Þá segir hún; „Ef ei væri meiri ótryggð hjá yður mönnunum í sveitunum en hjá oss tröllunum í fjöllunum þá færi betur fram hjá yður en fer.“ Síðan skildu þau og sást skessan aldrei framar. Héldu menn að hún hefði ekki gefað um að verða fyrir ljóðum eða ákvæðum Þorleifs.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 506.

© Tim Stridmann