„Sálina finn ég hvergi“

Sr. Jón Jónsson sem var prestur í Nesþingum undir Jökli frá því fyrir 1580 og til 1614 eða 15 og bjó á Fróðá var haldinn margvís og skrumlaus. Hann lét kunningja sinn einu sinni á sér merkja að hann mundi vita hvað sálum þeirra manna liði sem hann syngi yfir og hvort þær yrðu hólpnar eða ekki. Kunningi hans gat um þetta við kunningja sinn og þannig komst það á fleiri manna vitorð. Var nú mönnum hugur á að gera tilraun til að reyna vitru prestsins, en fengu ekki tækifæri til þess um hríð unz svo bar eitt sinn að að prestur fór norður í Eyjafjörð að hlutast til um arf og kvaðst mundu á burtu verða í mánuð. Á meðan hann var að heiman dó kerling ein í Stapatúni; menn tóku sig saman um að gjöra nú tilraunina, fólu lík kerlingar, en smíðuðu líkkistu handa henni og létu þar í skötu og fluttu til kirkju og grófu nokkru seinna sjálfir yfirsöngslaust. Þetta bragð fór svo leynt að engir vissu nema þeir sem að stóðu. Prestur var skemur á burt en ætlað var og kom heim tveim dögum eftir greftrun þessa; var honum þá sagt frá láti kerlingar og greftruninni og kváðust hafa tekið þetta til bragðs því þeir hefðu ekki vænt svo brátt heimkomu hans. Hann fann ekki að greftruninni.

Kunningi hans sá er áður var nefndur bjó á Þæfusteini og var með í þessum ráðum; hann kom að máli við prest á næsta messudegi á Ingjaldshóli hvað hann ætlaði um sálu kerlingarinnar. „Það skal ég segja þér áður ég héðan fer,“ segir prestur. Strax þá messufólk var burtu farið gengur prestur út í kirkjugarð og nemur staðar við gröfina hvar þeir kváðust hafa jarðað Stapatúnskerlinguna. Téður kunningi hans var með honum og tveir vitundarmenn aðrir; prestur gengur nokkrum sinnum kringum gröfina með áhyggjusvip og mælir ekki orð. Þá innir kunningi hans til við hann hvað hann ætli um sál kerlingarinnar; hann svarar og heldur fálega: „Það veit ég ekki,“ þegir um stund og segir síðan: „Hér munu brögð í tafli, sæðið er af sjó, en sálina finn ég hvergi.“ Fleiru gegndi hann ekki. Síðan var presti með auðmjúkri forlátsbón sagt hið sanna, kistan tekin upp, skatan úr tekin, en lík kerlingar aftur í látið, og jörðuð með yfirsöng.

Sumir segja að langa væri í kistuna látin, en fleiri segja hitt. Saga þessi hefir lengi geymzt í munnmælum og á hana er líka drepið í ættartölubókum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 612–613.

© Tim Stridmann