Griðkonan

Jón er bóndi nefndur; hann bjó á Hellu á Árskógsströnd. Guðrún hét kona hans. Þau áttu einn son barna og bar sá nafn föður síns. Í þann tíma bjó sá maður í Ási á Þelamörk er og hét Jón; hann átti þá konu er Þorbjörg er nefnd. Jón í Ási hafði hreppstjórn í sinni sveit. Svo er sagt að heldur væri fátt með þeim nöfnum.1 Voru þeir báðir kallaðir forneskjumenn og göldróttir og þó einkum Jón á Hellu, en ólíkt var þeim farið því Jón á Hellu var illmenni og ójafnaðarmaður, en Jón í Ási hafði orð gott og kom hvervetna vel fram þó hann þætti brögðóttur nokkuð ef því var að skipta. Illa varð Jóni á Hellu til hjúa og varð hann oft að búa einn með konu sinni og syni. Þó varð það eitt vor að hann gat svælt til sín vinnukonu, en skamma stund hélzt hún við í vistinni og varð hún brátt að stökkva burt af Hellu fyrir illindum þeirra hjóna, húsbænda sinna. Leitaði hún þá til næsta bæjar og bað konu þá er þar bjó að skjóta yfir sig skjóli, að minnsta kosti um nótt. Húsfreyja kvaðst eigi hafa traust til þess að halda hana þar fyrir illsku og eftirleitan Jóns á Hellu; mundi henni sá kostur vænstur að fara heim aftur í vist sína, en ef hún treystist eigi til þess þá væri það ráð sitt að hún færi til Áss og beiddi Jón hreppstjóra ásjár. Þetta ráð þekkist stúlkan og ljær húsfreyja henni hest til reiðar um kvöldið inn í Ás á laum við bónda sinn. Segir nú ekki af ferðum hennar fyrr en hún kemur að Ási síð um kvöld svo að flest fólk var háttað nema Þorbjörg húsfreyja, hún var enn á ferli. Stúlkan heilsar Þorbjörgu og biður hana viðtöku og ásjár og segir henni allt um vandræði sín. Þorbjörg tók lítt á erindum hennar og var alltreg að taka við henni, kvað bónda sínum mundi lítið gefið um vist hennar þar, en hann var ei heima. Þó lét hún til leiðast um síðir og sagði að stúlkan mundi verða að vera þar um nóttina og þar til bóndi sinn kæmi heim, gæti hún þá borið upp við hann vandræði sín, og lézt ekki mundu spilla máli hennar. Því næst lætur hún stúlkuna fara inn og vísar henni til hvílu og biður hana hafa kyrrt um sig fyrst því bóndi sinn muni brátt heim koma. Þessu verður stúlkan fegin og háttar hún skjótt. En húsfreyja gengur til svefnhúss þeirra hjóna innst í baðstofu. Í þessum svifum kemur Jón bóndi heim og gengur inn til konu sinnar; er hann þá nokkuð þungbrýnn og gustmikill og spyr konu sína þegar hver gestur þar sé kominn. Húsfreyja segir honum allt hið sanna um þarkomu stúlkunnar og vandræði hennar og biður hann nú líkna aumingja þessum og skjóta yfir hana skjóli, því ella sé henni einskis ills örvænt af Jóni á Hellu og geti það kostað líf hennar. Bóndi tekur þessu allþungt, en lætur þó sveigjast til um síðir við umtölur konu sinnar og heitir að taka við stúlkunni. Þetta spyrst nú víða og fréttir Jón á Hellu það brátt að griðkona hans er komin í Ás og hefir fengið þar vist; hefir hann þetta nokkuð svo í skopi, og ekki trútt að hann léti ei fjúka í heitingum við Jón í Ási um stúlkutökuna.

Nú víkur sögunni til Jóns í Ási, að hann býður konu sinni mikinn vara á því að ef svo kunni að fara að eitthvað beri til nýlundu á bæ þeirra svo að hann sé eigi heima við, þá skuli hún ei gefa því gaum eður gera þar neitt að fyr en hann komi sjálfur til. Húsfreyja heitir góðu um það. Þá var sá siður víða — og svo var í Ási — að kýr voru mjólkaðar á stöðli á sumrum, en lágu úti um nætur. Var Þorbjörg húsfreyja því vön jafnan að mjólka sjálf kýr sínar. Þau hjón áttu eina þá kú er þeim þótti mjög vænt um, einkum Jóni bónda; hún var sægrá að lit og hinn bezti gripur. Hún var jafnan mjólkuð sér og drakk Jón bóndi oft mjólk hennar á kvöldum.

Eitt kvöld um vorið var Jón á engjum að sýsla um vatnsveitingu og vinnumaður hans einn með honum, en vinnukonur allar á grasafjalli nema stúlkan frá Hellu, hún var heima. Fer hún um kvöldið með húsfreyju á stöðul að mjólka kýrnar eins og vant var. Eru þá tvær kýrnar sægráar komnar á stöðulinn þar sem ei var von nema einnar með þeim lit og báðar svo líkar að húsfreyja fær eigi þekkt hvor þeirra sé sín kýr. Hefir hún nú á orði við griðku að hún megi hvoruga þeirra mjólka, fyrst hún geti ei þekkt þær í sundur, því bóndi sinn muni eigi vilja drekka mjólk úr annari kú en Gránu sinni. Griðkona segir að hin aðkomna kýrin muni vera þar úr nágrenninu þó hún muni nú eigi eftir henni, og sé því óhætt að mjólka hana. Húsfreyja kveður það eigi skuli vera fyr en bóndi sinn komi heim. Bíða þær nú heimkomu hans. Og sem hann kemur heim er hann fremur styggur yfir því að ei sé búið að mjalta kýrnar og reka þær í haga. Húsfreyja segir honum þá hver efni í séu, að þar sé komin á stöðul sægrá kýr ókunnug og fái hún eigi þekkt hana frá Gránu þeirra. En sem Jón heyrir þetta glottir hann við og kveðst skulu ganga með þeim á stöðul, og svo gerir hann. Hann gengur síðan að annari kúnni hinni sægráu og tautar eitthvað yfir henni sem þær konurnar skildu eigi, en við þann yfirlestur bregður henni svo að hún fer þar niður sem hún var komin. Eftir það mjólkaði húsfreyja Gránu sína og drakk Jón þar mjólk hennar á stöðlinum, en síðan gengu þau öll heim og tóku á sig náðir. Kvað Jón þetta nú vera fyrstu vinsending Jóns á Hellu því þessa kú hefði hann sent hingað til að drepa sig.


1 Jón á Hellu Guðmundsson dó um 1666. Jón í Ási (Skógum) var Illugason (á 17. öld, sbr. Ísl. æviskrár). Sjá I. bd., 585.–588. bls. þessarar útgáfu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 542–544.

© Tim Stridmann