Kýrhvarfið

Þetta var snemma sumars. En seint á engjaslætti var það einhverju sinni að Jón bóndi á Skógum var heima að hirða hey og koma í garð með konu sinni. Jón bóndi átti rauða kú, mesta dánumannsgrip. Hún hafði borið snemma um sumarið og var það vani hennar að ganga heim úr haga um daga til að láta mjalta sig. Þennan dag er Jón bóndi var að hirða heyið kom kussa heim sem hún var vön og þó heldur í fyrra lagi. Bóndi var að tyrfa heyið er kussa kom og var kona hans hjá honum. Hún vill fara að mjólka kúna, en bóndi bannar henni það; segir að ekki skuli mjalta kussu í dag. Gengur hún baulandi í kringum heyið með júfrið dragsítt og sprengfullt af mjólkinni. Er húsfreyja aftur og aftur að ámálga það að hún vill mjalta kussu. En bóndi bannar henni það með öllu. Líður svo dagur að kveldi. Og er bóndi hefur lokið heyverkum fer hann inn í bæ og lokar bænum sem ramlegast og bannar öllum mönnum að líta út það kvöld eður þá nótt. Kýrin gengur baulandi í kringum bæinn og er húsfreyja í illu skapi af því að mega ekki mjólka hana. Húsfreyju verður litið út um baðstofugluggann og sér að kýrin stendur undir húsvegg á túninu og er hún þá illileg mjög svo húsfreyju býður við að sjá hana. Þar höfðu verið drepnir hundar tveir fyrir fám dögum og lágu hræ þeirra í dæl nokkurri á túninu. Það sér húsfreyja að hundarnir fara á fætur með gelti og ólátum að kussu og drífa þeir hana norður frá bænum, og að lítilli stundu liðinni er allt horfið. Varð aldrei vart við kussu eftir það og þótti öllum undarlegt hvarf hennar nema Jóni bónda. Hann var rólegur og gerði engan rekstur að um hvarf hennar. Leið svo fram á vetur.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 587.

© Tim Stridmann