Latínu-Bjarni

Teitur hét maður, sonur Jóns lögréttumanns á Grímsstöðum í Breiðavík sem annálinn reit. Teitur var vel að sér og skrifari góður, gleðimaður mikill og hraustur að afli. Hann fékk þeirrar konu sem Guðrún hét Bjarnadóttir, fósturdóttir föður Teits, sem var hagmælt og vel að sér. Þau Teitur bjuggu á hálfum Knör á móti Latínu-Bjarna sem átti hann hálfan móti Teiti.

Bjarni var afar kvensamur og er það sögn manna að hann hefði við kvennagaldur með öðru fjölkynngi; tók hann nú að leggjast á hugi við Guðrúnu konu Teits og lét hún mann sinn vita áleitni Bjarna, en þó Teitur þætti fróður maður treystist hann ekki að sjá við Bjarna; seldi hann því Knör og flutti sig að Sveinsstöðum.

Það hafði verið lengi gamall siður að halda jólagleði undir Jökli. Þorvarður hét maður, hniginn á efri aldur; hann var gildur bóndi og bjó að Munaðarhóli. Þar átti gleðin að vera einn vetur sem oftar. Þar kom Teitur á Sveinsstöðum og margir fleiri. Um kvöldið kom þar maður ókenndur og bað Þorvarð gistingar. Þorvarður spyr Teit hvort óhætt væri að hýsa mann þenna; Teitur kvað óhætt að hýsa manninn, en ekki þann sem með honum væri, en menn vissu ekki til að neinn væri með honum. Var þessu síðan ekki framar gaumur gefinn.Var leikið og drukkið vel um kvöldið þangað til menn gengu til rekkna sinna; voru þeir Teitur og Þorvarður kallaðir ölkærir. Teitur átti að sofa í lokrekkju sem krókuð var hurð fyrir að innan. Um morguninn þegar aðrir voru komnir á fætur kom ekki Teitur á fætur; var þá kallað til hans, en það kom að engu; síðan var lokrekkjan brotin upp; var hann þá örendur í hvílunni og blár hringur marinn um háls honum. Eignuðu flestir illvirki þetta fjölkynngi Latínu-Bjarna; er þessi jólagleði sögð hin síðasta undir Jökli.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 530.

© Tim Stridmann