Mjólk seidd af Íslandi

Þegar Kristján konungur fjórði réði Danaríki fór hann oft í dularbúningi um lönd sín. Kom hann í einni þeirri ferð til Norvegs. Heyrði hann getið um eina finnska frú göfuga og gestrisna, en það var honum sagt undarlegt í háttsemi hennar að hún hefði alltaf mjólk án þess þó að hafa nokkurn mjólkurpening. Til þeirrar sömu kom hann og fekk meðal annars mjólk hjá henni. Fór hann að spurja hana um þetta, en hún skeytti því ekki. Aftur seinna kom hann til þessarar sömu frúr án þess að leynast, spurði hana enn hins sama. Feilaði hún sér fyrir honum og lét uppi allt hið sanna. Gekk hún að tré einu, tók úr því tappa, setti pípu í gatið og bunaði þar úr mjólk þar til full var fjórðungsskjóla. Konungur bað hana að mjólka meira. Hún fór til aftur sárnauðug og fyllti aðra. Konungur bað hana að mjólka meira, en hún mælti ákaft á móti, fór þó enn til fyrir ótta sakir. En er sopakorn var komið í skjóluna var mjólkin blóðblönduð og því næst tómt blóð. Sagði hún þá vera dauða þá beztu kú á Íslandi. Sagt er að konungur léti aflífa hana fyrir fjölkynngi sína; aðrir segja að hann héti henni lífi ef hún segði sér hið sanna.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 622.

© Tim Stridmann