Oddur lögmaður og Páll Vídalín sendast á drauga

Einhverju sinni sem oftar sendu þeir Oddur og Páll hvor öðrum sendingar. Páll vakti upp mann þann úr Þingeyragarði er múkur hafði verið og hét Gunnlaugur.

Þegar Páll hafði magnað draug þenna sendi hann hann á stað til að drepa Odd lögmann. En um sama leyti hafði Oddur einnig vakið upp draug sem hann sendi Páli Vídalín. Þessir tveir mættust á Grímstungnaheiði við læk einn sem ber nafn af viðureign þeirra og heitir Leggjabrjótur. Þegar Gunnlaugur kom að lækjarbakkanum að norðan og sá hinn hinumegin lækjarins kvað hann:

„Hvaðan komst þú að hitta mig
hér á norðurgrandanum?“

Þá svarar hinn er kom frá Oddi lögmanni:

„Sendur var ég að sækja þig
af sjálfum höfuðfjandanum.“

Þá segir Gunnlaugur:

„Hvað vilt þú nú hafa með mig
sem helgum er gefinn andanum?“

Þá svarar hinn:

„Svo búinn aftur sendi ég þig
sjálfum höfuðfjandanum.“

Í því ruku þeir saman og flugust á allsterklega og hættu ekki fyrr en þeir höfðu brotið bein sín upp að knjám, og hefir síðan ekki orðið vart við þá.

Í öðru skipti sendu þeir Oddur og Páll hvor öðrum drauga. Varð Páll fyrri til að koma upp draugnum en Oddur. Oddur var nýkominn úr kaupstað og hafði tekið við sem hann ætlaði til kirkjubyggingar. Lét hann bera viðinn af skipi og hlaða í bunka. Oddur flýtir sér nú að koma upp draug er hann ætlaði Páli. En þegar hann er nýbúinn að koma hinum á legg kemur sá er sendur var frá Páli á móti hinum og mættust þeir við viðarbunkann og börðust með borðunum þangað til ekki var eftir ein spýta heil, og er síðan ekki getið um þá.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann