Papeyjarbuxur og fleiri fébrögð

Papeyjarbuxur, Finnabrækur og gjald- eða skollabuxur er sagt teknar [séu] af niðurhluta mannaskinns og þar í látinn stolinn peningur sem alla tíma skyldi draga að sér so aldrei þryti, en aldrei mátti gefa þá fátækum. Þessar buxur áttu menn að hafa næst sér og aldrei úr fara. Þó segir sagan að menn hafi viljað koma þeim af sér upp á aðra áður þeir dæju.

Flæðarmús átti að nást úr sjó og geymast [í] hveiti og undir hana látast peningur sem hún átti að auka með jafnstórum hvort sjávarfall, og átti hann að takast þá burt.

Þjófarót vaxin upp af tungurótum dysaðra þjófa. Hana mátti ekki grafa upp, heldur binda um hana aftan í graðhest og láta hann slíta hana upp, en líta ekki aftur þó mikill heyrðist smellur. Hún átti eins og flæðarmúsin að berast á brjósti og þá átti hún að draga að sér peninga úr jörðu.

Annað ráð til að ná fólgnu fé úr jörð átti að vera að gæta að hvar eldsbirta sjæðist á nætur og kasta þangað einhvörju og leita þess að morgni; þá mætti grafa þar eftir fénu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 456.

© Tim Stridmann