B. Sagnarandar

Ef maður vill vita óorðna hluti þarf ekki annað en útvega sér sagnaranda og segir hann manni frá öllu sem maður vill vita og líkist í því draummanni nema hvað andinn segir manni allt í vöku, en draummaðurinn í svefni. En miklu meiri kynngi þarf til þess að útvega sér sagnaranda en draummann sem hér segir.

Vilji maður fá sér sagnaranda skal maður fara einn frá mönnum þangað sem hann veit að enginn muni koma því líf hans liggur við ef á hann er yrt á meðan hann er að seiða til sín sagnaranda. Hann skal leggjast í skugga (forsælu) og snúa sér mót norðri. Hafa skal hann kapalskæni yfir vitum sér og lesa svo galdraþulu nokkra. Skænið leggst inn í munn þess sem seiðir og kemur þá andinn og vill fara ofan í manninn. Verður þá skænið fyrir honum og þegar hann er þar kominn bítur maðurinn saman tönnunum. Verður þá andinn innan í skæninu og lætur maðurinn skænið með andanum innan í bauk. Ekki mælir andinn fyrr en maðurinn hefur dreypt á hann helguðu víni. Skal hann svo að því fara að hann hefur baukinn sem andinn er í undir klút sínum þegar hann fer til altaris. Spýtir hann þá víninu út úr sér í baukinn. Gefa má og sagnaranda dögg þá er fellur í maímánuði, en ekki er það einhlítt. Sagnarandi segir þeim er hann hefur allt sem hann vill vita, en helzt talar hann í þykku rosaveðri og austanátt. Sleppi sagnarandinn úr bauknum gjörir hann þann mann vitlausan sem átti hann því hann fer ofan í hann.

Sagnarandi Torfa á Klúkum

Torfi nokkur á Klúkum í Eyjafirði átti sagnaranda. Hann var loðmæltur orðinn fyrir elli sakir og vanhirðingu. Sagðist hann vera síðan úr Sturlungatíð og hafa gengið mann frá manni. En ekki hef ég heyrt hver hann var í lifanda lífi því sagnarandi á að vera vofa eftir dauðan mann. Þegar maður er feigur orðinn fer sagnarandinn að ljúga að manni, en fyrr ekki. Torfi lét Sigfús nokkurn á Efstalandi í Öxnadal fá sagnaranda sinn. Þegar Sigfús var gamall orðinn vildi hann láta Jón á Auðnum í Öxnadal fá hann, en hann vildi ekki þiggja hann. Andi þessi var geymdur í rauðlituðum eikarbauk. Þegar Sigfús hélt að hann ætti skammt eftir ævi sinnar fór hann eina nótt fram í Engimýrarhóla og tók Jón á Auðnum með sér. Þar grófu þeir baukinn í hólunum og bjó Sigfús um hann og signdi leiði hans. Jón spurði hví hann signdi leiðið andans. Sigfús sagði: „Ég signi hann í fjandans nafni, karl minn.“ Þykjast sumir hafa séð vofu yfir leiði andans og vita menn enn hvar það er. Þau álög fylgja sagnaranda að þar sem hann er grafinn, á hjónum ei að koma vel saman og þykir það hafa rætzt á þessum bæ.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 421–422.

© Tim Stridmann