Þeir sem vildu afla sér peninga sem aldrei væri þrot né endir á fengu sér skollabrækur sem og heita Finnabrækur, gjaldbuxur eða nábuxur (nábrók) og Papeyjarbuxur, en þær eru svo undir komnar sem nú skal greina:
Sá sem vill fá sér brækur þessar gjörir samning við einhvern í lifanda lífi er hann þekkir að hann megi nota skinnið af honum þegar hann sé dáinn. Þegar svo er komið fer hinn lifandi á náttarþeli í kirkjugarðinn og grefur hinn dauða upp. Síðan flær hann af honum skinnið allt ofan frá mitti og niður úr gegn og lætur það vera smokk því varast skal hann að gat komi á brókina. Því næst skal hann fara í brókina og verður hún óðar holdgróin, unz manni tekst að koma henni af sér á annan. En áður en brækurnar verði nokkrum að notum verður hann að stela peningi frá bláfátækri ekkju á einhverri hinna þriggja stórhátíða ársins á milli pistils og guðspjalls, aðrir segja daginn eftir að hann hefur farið í þær, og láta hann í pung nábrókarinnar. Eftir það draga brækurnar fé að sér af lifandi mönnum svo aldrei er pungurinn tómur þegar eigandinn leitar í honum, en varast verður þó að taka þaðan peninginn stolna. Sá er annmarki á með Finnabrækur að sá sem á þær getur ekki úr þeim losazt eða skilið þær við sig þegar hann vill, en á því ríður öll andleg velferð hans að hann sé búinn að því áður en hann deyr auk þess sem lík hans úir og grúir allt í lúsum ef hann deyr í þeim. En þess er enginn kostur nema hann fái einhvern til að fara í þær af sér og verður það með því einu móti að hann fari fyrst úr hægri skálminni, en jafnskjótt fari hinn er við þeim tekur, í hana. En þegar hann er í hana kominn getur hann ekki aftur snúið þótt hann vilji, því ef hann ætlar að færa sig úr henni aftur er hann kominn í hina vinstri án þess hann viti hvernig það hafi orðið. Má þá með engu móti losast við þær nema á fyrrsagðan hátt, en náttúru sinni halda Finnabrækur mann af manni og slitna aldrei.
Nöfnin á brókum þessum eru flest auðskilin, t. d. skollabrækur af því að athæfið allt við að útvega sér þær er svo djöfullegt, en þó hef ég einnig heyrt þá sögu að brækurnar séu af Skolla sjálfum og að hann gefi þeim einum þær sem hafa veðdregið sig honum lífs eða liðnir. Finnabrækur heita þær líklega af því að Finnar voru orðlögðustu galdramenn á Norðurlöndum í fornöld. Nöfnin gjaldbuxur og nábuxur eru dregin annað af verknaði brókanna, en hitt af tilbúningi þeirra. En Papeyjarbuxur hef ég heyrt að þær héti af því að í Papey eystra hafi jafnan verið auðmenn mestu að sagt er og hefur það verið ætlun manna að ekki væri einleikið með þann auð og að þeir mundu hafa haft þetta bragð við auðsafn sitt.1
1 Ein sögn er það að Mensalder hinn auðgi í Papey hafi haft brækur þessar og því rakað saman ógurlega miklu fé. En þegar hann kom ekki brókunum af sér varð hann að lokunum þungsinna og sturlaður. Er svo mælt einu sinni þegar verið var að búa um hann hafi hann sagt að senn mundi þetta fara af og annað taka við. Nokkrum dögum seinna var hann í góðu veðri að reika út um eyna; gjörði þá fellibyl mikinn, síðan hefur Mensalder ekki sézt. Sbr. Árb. Esp. XI, 103. Frásögnin um Finnabrækur gengur um allt land.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 415–416.