Skollabuxur

Sumir sem hafa viljað vera sífellt peningabirgir hafa búið sér til svonefndar skollabuxur; þær eru kenndar við kölska því hann er oft kallaður „skollinn“ í daglegu tali. Þær eru líka nefndar Papeyjarbuxur (máske þær hafi fyrst komið upp í Papey). Sá sem vill gjöra þær flær belg af dauðum manni upp að mitti og færir sig þar í beran, gjörir þar á vasa, stelur síðan peningi, stærri eða minni, og lætur í vasann, en þegar hann ætlar að taka hann aftur eru þeir orðnir tveir, og tekur hann annan en skilur annan eftir. Þegar hann fer í vasann aftur eru orðnir tveir peningarnir aftur. Þetta gengur hvurt sinn sem hann fer í vasann, en aldrei má hann taka nema annan peninginn. Sá sem einu sinni er kominn í þessar buxur kemst aldrei úr þeim aftur nema annar vili taka við af honum, og fer sá þá í fyrri skálmina áður en hinn fer úr þeirri seinni, annars gengur hún ekki af. En ef maðurinn deyr í þessum buxum þá þarf ekki að spurja að hvað um sál hans muni verða.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 456.

© Tim Stridmann