Sá sem vildi gjöra fjandmönnum sínum tjón sendi þeim bæði sendingar sem áður er sagt og stefnivarga. Stefnivargur þýðir í sjálfu sér úlf sem stefnt er á eitthvað, en í þessari merkingu þau dýr sem mögnuð eru með göldrum og síðan beint að öðrum, þeim til tjóns og torlegðar.
Einu sinni bjó ríkismaður í Akureyjum, allra mesti maurapúki, sem aldrei tímdi að víkja fátækum neinu. Galdramaður nokkur sendi honum til hefnda fyrir þetta músavarg svo mikinn að þær eyddu öllu sem bóndinn átti og hann dó seinast í mesta armóð; eftir þetta voru mýsnar langan tíma á eyjunni. Gjörði þá eigandi þeirra boð eftir öðrum galdramanni. Hann kom og lét steikja handa sér heilt sauðarlæri og settist niður með það á eynni og ætlaði að fara að snæða það. En undireins voru mýsnar komnar hópum saman utan um hann til að fá sér bita með honum. Galdramaðurinn stóð þá upp aftur, tók steikarlærið í hönd sér, gekk með það heim og innan um allan bæ og síðan út á ey aftur þangað til hver einasta mús sem til var á eynni var komin utan um hann. Þá snaraði hann lærinu í djúpa gröf sem hann hafði áður látið grafa til þess. En mýsnar stukku allar á eftir steikinni ofan í gröfina; lét hann þá þegar byrgja gröfina aftur og lagði um leið blátt bann fyrir að hagga við henni nokkurn tíma framar. Eftir það var lengi engin mús í Akureyjum. Mörgum árum seinna lét eigandi eyjanna sem þá var leggja þar grundvöll að nývirki nokkru og þá voru menn svo vanhyggnir að opna gröfina aftur. Þustu þá mýslur upp á augabragði og eru síðan allt til þessa dags til kvalræðis fyrir eyjar þessar sem annars eru svo vel úr garði gerðar.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 425–426.