Einu sinni heyrði Halla vinnumennina sína vera að tala um það hvað hundarnir ættu gott; þeir mættu flatmaga alla daga í góða veðrinu og lepja sólskinið, en þyrftu ekkert að vinna. Fóru þeir mörgum orðum um þetta og létust mikillega öfunda hundana. Þegar Halla heyrði það brá hún þeim í hundalíki og lét reka með þeim stóð inn á fjall. Þeir urðu fjarskalega móðir og lúnir og þótti þeim illt líf sitt og leiðinlegt. Þóttust þeir vera soltnir mjög. Urðu þeir nú engu fegnari en því þegar Halla leysti þá úr álögunum aftur. Er þess ekki getið að vinnumennirnir hafi síðan öfundað hundana af ævi þeirra.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 498.