Í miðri Refasveit sem er hérað eitt í Húnavatnssýslu er vatn nokkurt sem kallað er Langavatn; vestur úr vatni þessu gengur síki sem kallað er Heljardíki og er þessi saga sögð frá því. Í vatninu var í fyrri tíð mikil veiði og veiddu í vatninu ásamt öðrum fleirum konur tvær, Svana er bjó á Svangrund og Síða sem bjó á Síðu, og voru oft deilur milli þeirra út af veiðinni í vatninu. Eitt sinn hittust þær að vestanverðu við vatnið og leiddu þar hesta sína saman eins og fyrri; en í þetta skipti lauk svo að þær hétust og opnaði þá jörðin sig og svalg þær báðar, og sprakk þá fram díkið sem síðan er kallað Heljardíki. Þau álög eru síðan á vatninu að aldrei gengur silungur í það eða aðrir ætir fiskar sem þó er sagt að séu í öðrum vötnum þar í kring, en nóg er þar af hornsílum sem enginn maður leggur sér til munns.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 461.