Halldór og Gestur

Tveir menn voru á Álftanesi (í Sviðholti) sem ávallt reru saman tveir einir á báti; hét annar Halldór, en hinn Gestur. Einu sinni sem oftar réru þeir og lögðust fyrir flyðru. Halldór kemur þá í lúðu, dregur hana undir borð og grípur svo hnallinn til að dasa hana með. En þegar Gestur sér hvað um er að vera færist hann á stúfana, stendur upp og ætlar að hjálpa Halldóri. En þegar hann er kominn rétt að Halldóri reiðir hann upp hnallinn til að rota lúðuna, en um leið rekur hann hnallinn í höfuðið á lagsmanni sínum svo hann rýk[ur] um koll. Halldór gætti þess ekki, en bisar við lúðuna þangað til hann getur innbyrt hana. Svo rennir hann aftur og hugsar ekki til lagsmanns síns. Eftir góðan tíma raknar þó Gestur úr rotinu og segir: „Mikil ósköp eru á þér, Halldór; hefðirðu nú drepið mig með hnallinum.“ Halldór segir: „Ekki vissi ég þú varst í bátnum.“ „Vissirðu þá ekki,“ segir Gestur, „að ég réri með þér í morgun?“ „Jú, jú, ég vissi það að sönnu,“ segir hinn; „en ég vissi þó ekki að þú mundir fara í hnallinn.“

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bl. 408.

© Tim Stridmann