Einhverju sinni var kona nokkur sem hafði mikla málnytu og tók því títt og oft osta um sumarið. Dóttir húsfreyju spurði hvað hún ætlaði að gjöra af öllum ostunum, en hún sagðist ætla að geyma þá handa honum Hausta, hann mundi geta tekið við þeim. Eitt sinn að álíðandi sumri fór húsfreyja að heiman. Á meðan hún var í burtu kom ferðamaður að bænum eins og oft bar við. Bóndadóttir spurði hann að nafni, en sá sagðist heita Hausti. „Þú munt vera sá sem hún móðir mín ætlar alla ostana,“ segir bóndadóttir. Hún hleypur því inn með skyndi, sækir alla ostana og fær honum. Maðurinn tók við þeim og endurgalt henni með þökkum og fór því næst leiðar sinnar, og höfum vér ekki fleira af þeim heyrt.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bls. 383.