„Sælir og blessaðir, heykrókur góður“

Einu sinni hafði biskup gert boð um biskupsdæmi sitt að hann ætlaði að ríða á útlíðandi vetri í vísitazíu. Var nú komið að þeim tíma sem hans var von í hérað eitt, en bóndi var þar einn sem bjóst við að biskup mundi koma til sín af því ekki varð annarstaðar farið en um hlaðið hjá honum, og bjó hann sig því undir að taka á móti biskupi sem bezt hann gat. Einn dag um sumarmálaleytið þegar bóndi var að taka til hey í meisana kemur honum til hugar að hann þurfi að búa sig undir að geta heilsað biskupinum sæmilega. Hann hefur þar ekkert annað hendi lengra hjá sér til að láta tákna biskupinn en heykrókinn og stingur honum því í heystálið, tekur ofan tóftarhettuna, gengur að heykróknum og segir: „Sæll og blessaður heykrókur góður. — Já eitthvað mun honum þykja að því arna, blessuðum,“ segir hann við sjálfan sig, fer svo til aftur og segir: „Sælir og blessaðir, heykrókur góður. — Já, ekki mun honum líka að tarna heldur; ég skal hafa það enn fullkomnara: Alla tíma sælir og blessaðir, heykrókur góður. — Já, nú held ég hann geti ekki fundið að því.“ Í þessu bili man bóndi eftir því að hann á eftir að láta í ábætinn hennar Skjöldu og stekkur eftir honum fram á fjóskamp úr tóftinni. En í því hann kemur fram á kampinn ríður biskup í hlaðið. Hugsar nú bóndi sér til hreifings að heilsa biskupinum virðulega, rýkur að honum og segir: „Alla tíma sælir og blessaðir, heykrókur góður.“ Biskup brosti við og sagði: „Allir eiga leiðrétting orða sinna,“ kvaddi bónda og reið í burt.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bl. 508.

© Tim Stridmann