Skemmuþjófurinn

Kona kom um kveld til manns síns með öndina í hálsinum; hann var að mestu afklæddur; hún segir honum að skemman sé í hálfa gátt og hún ætli að þjófur sé í hana kominn. „Þetta er ósatt,“ segir hann, „ég var í skemmunni í kveld og þá var þar enginn.“ Konan heldur því fastara á sínu máli og biður hann að gæta í skemmuna og fer hann. En er hann kemur að skemmudyrunum kallar hann og spyr: „Er þarna nokkur?“ Þá er sagt í skemmunni: „Hér er enginn.“ „Á, kom að sögu minni,“ mælti hann, „ég vissi að hér var enginn.“ Fór hann svo inn til konunnar og sagði henni sem farið hafði. „Ertu vitlaus, maður?“ mælti konan, „farðu út aftur og taktu þjófinn sem gegndi þér í skemmunni.“ Þá skildi hann að einhver hefði þar verið og fór út aftur, en þá var þjófurinn burt farinn með þýfi sitt.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann