Bjarndýr glímir við tunnu

Undir bröttum hálsi á Vestfjörðum stendur bær einn; þar bjó einu sinni ríkur bóndi sem átti stóran hjall upp á hálsbrúninni er hann geymdi í bæði fiskæti og ýmsa aðra muni. Frá bænum lá beinn vegur upp á hálsinn rétt fram hjá hjallinum. Vegurinn var djúpur og leit út eins og traðir því stórgrýti var raðað beggja megin, en sléttur var hann í botninn. Bóndi verður þess var að á kveldin þegar dimmt er orðið kemur bjarndýr og gengur rakleiðis upp veginn að hjallinum; sótti það í fisk bónda og hafði þegar gjört honum allmikið tjón. Hann hugsar þá upp ráð til að venja bangsa af fiskátinu. Hann lætur búa til afar stóra tunnu sem fyllti rétt upp í veginn þegar henni var velt niður hálsinn; hann lætur járnbinda hana, síðan velta upp á hálsinn, fyllir hana þar með grjóti og býr vel um botninn. Nú lætur hann tunnuna liggja á hálsbrúninni þar sem tröðin byrjaði og bíður sjálfur unz bangsi kemur. Hann kemur í sama mund og vant er og gengur grunlaus upp hálsinn. En þegar hann er rétt að kalla kominn upp veltir bóndi tunnunni á móti honum. Bangsi kemst þá ekki lengra. Tunnan sótti með ákefð niður brekkuna, en bangsi streittist við af öllum kröftum að stöðva á henni ferðina. Hann mátti ekki snúa sér við því þá var tunnan óðar í hælunum á honum; ekki gat hann heldur stokkið yfir hana því hann varð að neyta allrar orku til að spyrna á móti henni svo hún ekki skyldi velta ofan á hann. Með þessum atburðum var hann þá að glíma við tunnuna alla nóttina; smámjakaði hann sér aftur á bak undan henni unz bæði voru komin niður á jafnsléttu. Var þá bangsi kominn að niðurfalli af þreytu. Hann snautaði þá í burtu og leit hornauga til tunnunnar, en bóndi hló á eftir honum og hafði upp frá því hjall sinn í friði fyrir honum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 607.

© Tim Stridmann