Nafnarnir í Fnjóskadal og bjarndýrið

Árið 1809 eða 1810 var það milli jóla og miðs vetrar að vinnumenn tveir ungir, hétu þeir Jón Pétursson frá Bakka og Jón Jónsson frá Sörlastöðum í Hnjóskadal, gengu heiman frá sér á dal þann er Timburvalladalur heitir og liggur fram frá Sörlastöðum. Erindi þeirra á dalinn var það að vitja hesta sem gengu á dalnum; snjór var nokkur á jörð, en gangfæri þó allgott. Ganga þeir fram austan megin árinnar í dalnum, og sem þeir koma fram undir Fremrasel sjá þeir yfir í fjallinu á móti sér að skepna nokkur hleypur þar ofan hraðfara mjög. Þykir þeim það kynlegt því ekki vóru neinar vonir þess þar. Þeir geta ekki þekkt hvað skepnu það vera muni; þykir þó líkast að geit sé og ætla hún hlaupið hafi frá geithúsi í Kambfelli hinumegin fjallsaxlarinnar. Skepnu þessa ber brátt ofan frá fjallinu niður holtin beina stefnu til þeirra og á melhrygg þann sem liggur langs með ánni vestan megin gagnvart þeim. Nemur hún staðar á melnum, snýr við þeim hliðinni og teygir sig. Sjá þeir þá að annað er efni í en þetta sé geit og þekkja þeir að það er bjarndýr eftir sem þeir höfðu heyrt því lýst. Það stendur kyrrt á melnum og horfir á þá. Þeir sáu sig ófæra að mæta dýrinu, því ekki vopn var í stöfum þeirra; köstuðu þeir um fótunum og hlupu sem mest máttu til baka og alla leið yfir ár að Hjaltadal; var þangað mikið styttri leið en heim að Sörlastöðum. Hér sögðu þeir tíðindin, fengu ljái, réttu þá úr þjóum og festu í sterkar stangir, og þá vóru komin vopnin. Gengu þeir síðan sem leið lá á dalinn aftur að leita dýrsins. Sem þeir komu á melinn sama sáu þeir harðsporann eftir það og var svell í hrammförunum eins og snjórinn hefði bráðnað þar sem það sté niður. Þeir röktu slóðina af melnum niður til árinnar. Höfuðísar voru að ánni þykkir, en autt í milli, en þar sem dýrið bar að á ísnum sáu þeir að það mundi hafa með hramminum reynt ísinn því mikið stykki var brotið í skörina, og mældu þeir á stöfunum þykkt íssins sem frá hafði brotnað og var það alin á þykkt. Dýrið hafði snúið frá og gengið upp með ánni og þar yfir á sterkri brú og upp selhólana og beint í fjallið fyrir framan Fremraskarð. Röktu þeir för þess unz þeir misstu þau í urðunum hátt í fjallinu og urðu frá að hverfa. Geigaði frétt þessi fólk í dalnum, en svo lauk að hvergi varð vart við það þar.

Vetur var harður og hafís við land. Var það á þorranum að bóndi nokkur á Tjörnesi, hann hét Þorgrímur, kom út einn morgun og verður var þess að eitthvað er kvikt í hjalli hans. Hann skyggnist eftir og sér að þar er bjarndýr inni. Bregður hann við skjótt; fær hann sér lagvopn og getur með því lagt dýrið í brjóstið eða kviðinn; lagið var banasár. Dýrið leggst á sárið, en sem bóndi helt það mundi dáið fer hann að taka til þess, vill sundra það, var það þá enn með líftóru og gat rétt upp höfuðið og beit hann í handlegginn svo hann lá lengi eftir. Ætluðu menn að þetta hefði verið sama dýrið sem Jónarnir sáu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 4–5.

© Tim Stridmann