Skoffín er sagt að sé afkvæmi tófu og kattar og er kötturinn móðir. Verða skoffín því ætíð drepin áður en þau komast upp.1 Skuggabaldrar eru í föðurætt af ketti, en í móðurætt af tófu, og eru þeir eins skæðir að bíta sem stefnivargur eða refir sem galdramenn magna til að rífa annars fé, og ekki kveikja neinar byssur þegar á þá er hleypt. Einn skuggabaldur hafði eitt sinn gjört sauðfé Húnvetninga mikinn skaða. Fannst hann loks í holu einni við Blöndugil og varð þar drepinn með mannsöfnuði. Sagði skuggabaldurinn í því hann var stunginn: „Segðu henni Bollastaðakisu að hann skuggabaldur hafi verið stunginn í dag í gjánni.“ Þetta þótti undarlegt. Kom bani skuggabaldurs að Bollastöðum og var þar nótt. Lá hann uppi í rúmi um kvöldið og sagði frá þessari sögu. Gamall fressköttur sat á baðstofubita. En þegar maðurinn hermdi orð skuggabaldurs hljóp kötturinn á hann og læsti hann í hálsinn með klóm og kjafti, og náðist kötturinn ekki fyrr en höfuðið var stýft af honum, en þá var maðurinn dauður.
1 Um þetta fer þó tvennum sögnum; sjá næstu sögu á eftir.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org