4. Grein
Loftsjónir og tunglsögur

Þar sem nú er búið að minnast dýranna, grasanna og steinanna, þykir næst að geta hér hins fáa sem mér er kunnugt um náttúruviðburði himinsins og tunglsins.

Teikn á himni

Um friðarbogann sem og heitir regnbogi er það almenn sögn að sá sem geti komizt undir annan endann á honum svo að manni sýnist bogaendinn standa niður í hvirfil sér eigi ráð á hverri ósk sem hann vilji óska sér á meðan hann stendur undir friðarbogafætinum.

Stundum sjást eldshnettir í loftinu svo bjartir sem leiftur væri og svo stórir sem tungl í fyllingu. Svona var að minnsta kosti hnöttur sá sem Eggert Ólafsson sá hér 28. ágúst 1756. Slíkir hnettir heita vígahnettir og hefur alþýða ætlað að þeir mundu boða mannfall og styrjöld í öðrum löndum þegar þeir sæjust. Þegar slíkar loftsjónir eru aflangar að lögun og nokkur kyrrð á þeim heita þær vígabrandar og þykja boða allt hið sama og vígahnettirnir.1

Vígabrandur er svo til kominn að Vilmundur hét kappi mikill; hann vann margar orrustur og hólmgöngur og átti sverð, ágæta vopn. Seinast var hann sigraður og höggnar af honum hendur og fætur; lét hann þá bera sig að ánni Tiber og kastaði í hana eða lét kasta sverði sínu því hann unni engum að bera það og mælti svo um að merki sverðsins sæist á himninum fyrir stórtíðindum. Síðan hefur merki það sézt á himni sem vígabrandur heitir, en aldrei nema fyrir stórtíðindum eins og Vilmundur mælti fyrir.

Í kringum tunglið er oft hringur og heitir hann rosabaugur; þykir hann vita á storm, regn eða snjó og því verra veður sem hann er stærri. Ýmsa hluti fleiri þykir mega marka á því hvernig tunglið snúi eða líti út. Ef vaxandi tungl sýnist snúa álmunum til jarðar, en kryppunni upp, er sagt að „tunglið grúfi“ og að einhver skipskaðinn muni verða á tunglinu því arna. Ef tunglið er rauðleitt útlits boðar það styrjöld og mannfall. Þegar tungl fer að sjást eftir kveikingu og aðeins sést lítil rönd af því, en mótar þó fyrir allri umgjörð þess er það kallað að það sé „mánabert“ og veit það á storma og stórviðri.

Hjásólir eða aukasólir, það eru ljósdílar í kringum sólina, eru ekki sjaldsénar á Suðurlandi. Ef tvær hjásólir sjást í einu sín hvorumegin sólarinnar, önnur á undan sól, en hin á eftir, er það kallað að „sólin sé í úlfakreppu“ eða að „það fari bæði á undan og eftir sól“ og er hvort tveggja orðatiltækið dregið af úlfunum Sköll sem átti að gleypa sólina og Hata sem átti að taka tunglið.2 Stundum er þetta kallað gílaferð og hjásólin sem fer á undan sól gíll. Hann þykir ills viti með veður ef ekki fer einnig á eftir sólu, en sú hjásól er enn kölluð úlfur og er þaðan dreginn talshátturinn: „Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.“

Ef vel er tekið eftir má sjá að tunglið líkist mannsandliti með enni, nefi, augum, munni o. s. frv. og sama er að segja um sólina, þó sést það ekki eins glöggt á henni því hún er bæði bjartari og fegri. En það er andlitsmynd Adams sem er á tunglinu, en Evu á sólinni.


1 Sjá Ferðabók Eggerts og Bjarna, Rvík 1943, II, 111 og 215.

2 Sjá Snorra-Eddu, 22. bls.; sbr. Grímnismál, 39. er. (Eddukvæði, 94. bls.).

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 654–655.

© Tim Stridmann