Skarfarnir frá Útröst

Það skeður æði oft, að fiskimenn þeir, sem róa frá ströndum Norður-Noregs, finni kornstöngla fasta við stýri bátsins, eða byggkorn í kútmögum fiskanna. Og þá er sagt, að þeir hafi siglt yfir Útröst, eða eitt af þeim huldulöndum, sem sögur ganga af um bygðirnar við sjóinn þarna norðurfrá. Þessi lönd sjá ekki aðrir en frómir og framsýnir menn, sem eru í lífsháska á hafi úti, og þá koma löndin upp, þar sem annars er djúpur sær. Huldufólkið, sem þar býr, ræktar akra, veiðir fisk og hefir kvikfje, eins og menskir menn, en þar skín sólin yfir grænni högum og frjórri ökrum en nokkursstaðar í löndum menskra manna, og hamingjusamur er hver sá, sem fær að h'ta hinar sólglituðu eyjar. „Hann er hólpinn“, segja fiskimennirnir.

Bóndi sá, sem býr á Útröst er höfðingi mikill, og hefir fagran bát. Stundum kemur hann siglandi hvítum seglum á móti hinum mensku sjómönnum, en á sama augnabliki og þeir halda að árekstur verði, hverfur huldubáturinn.

 

Einu sinni bjó fiskimaður nokkur á þeim slóðum, sem sogurnar gengu um undralandið Útröst. Hann var fátækur og átti ekki annað en bátinn sinn og nokkrar geitur, sem konan hans hjelt lífinu í með fiskúrgangi og þeim heystráum, sem geiturnar gátu náð sjer í á grýttu landi Ísaks, en svo hjet fiskimaðurinn. Og húskofinn hjónanna var fullur af svöngum börnum. Samt var Ísak alltaf ánægður með það, sem Guð gaf honum. Það eina, sem honum fanst að, var það, að hann fekk eiginlega aldrei að vera í friði fyrir nágranna sínnm sem var maður auðugur, og sem fanst hann eiga að hafa allt betra en Ísak. En lendingin fyrir neðan kofann hans Ísaks var góð, og nú vildi nágranninn flæma hann burtu af kotinu, til þess að geta látið bátana sína lenda í litlu víkinni hans.

Djúpt á miðum rís hulduland úr hafi.

Einn dag var Ísak í róðri og var langt undan landi. Skall þá yfir hann níða þoka, og síðan gerði svo hvassan storm, að hann varð að varpa nærri öllum aflanum í sjóinn, til þess að verja bátinn og bjarga lífinu. Samt var erfitt að halda bátnum á rjettum kili, en Ísak kunni að stýra, og varðist brotsjóunum af mikilli stjórnkænsku. Hoppaði báturinn öldu af öldu og ágjöfin var furðu lítil. Þegar Ísak hafði siglt þannig lengi dags, hugsaði hann að hann hlyti nú að fara að nálgast land. En tíminn leið og veðrið versnaði enn. Þá fór það að skiljast honum, að hann stefndi til hafs, eða þá að vindáttin hafði breyst, og síðast sá hann að svo hlaut að vera, því hann sigldi og sigldi, en kom ekki að landi. Alt í einu heyrði hann ógurlegt hljóð fyrir stafni, og datt ekki í hug annað, en það væri hans eigin feigðarboði. Hann bað nú Guð að hjálpa konunni sinni og börnunum, því hann fann, að banastund hans var komin, en þegar hann var að biðja, sá hann eitthvað svart fyrir stafni, en þegar þetta nálgaðist, þá voru það bara þrír skarfar, sem sátu á rekaviðardrumb, og um leið þaut báturinn framhjá þeim. Enn sigldi hcinn lengi, og var nú orðinn svo svangur, þreyttur og þyrstur, að hann vissi ekkert, hvað til bragðs skyldi taka og dottaði við stýrið, en allt í einu kendi báturinn grunns. Þá var Ísak ekki seinn að opna augun. Sólin braust gegnum þokuna og skein yfir yndislegt land, frá sjónum voru lágir, hallandi ásar, iðjagrænir allt upp á brún, og Ísak fann svo mikinn blómailm, að ekkert líkt hafði hann áður fundið.

Þrír skarfar sátu á rekaviðardrumbi.

„Guði sje lof, nú er jeg hólpinn, þetta er Útröst“, sagði Ísak við sjálfan sig. Beint fyrir framan hann var byggakur, og hafði hann aldrei sjeð eins stór og bústin öx, og upp miðjan akurinn lá mjór stígur upp að húsi með grænu torfþaki, og uppi á þekju hússins var hvít geit að bíta, og hafði gylt horn, og júgur svo stór sem stærstu kýr. Fyrir utan húsið sat lítill bláklæddur maður á meis og reykti pípu. Hann hafði skegg svo mikið, að það náði honum langt niður á brjóst.

„Velkominn að Útröst, Ísak,“ sagði hann.

„Þökk sje þjer, faðir góður“, svaraði Ísak. „Þekkirðu mig þá?“

„O, ætli það ekki“, sagði karlinn, „þig langar til að fá að vera í nótt“.

„Já, ef jeg fengi það, þá myndi mjer þykja vænt um“, sagði Ísak.

„Það er verst með syni mína, þeir þola ekki lykt af kristnum mönnum“, sagði karlinn. „Hefirðu ekki hitt þá?“

„Nei, jeg hefi engan hitt, nema þrjá skarfa, sem sátu á rekaviðardrumb“, svaraði Ísak.

„Ja, það voru nú synir mínir“, sagði karlinn, og sló svo öskuna úr pípunni sinni og sagði við Ísak: „Gáttu í bæinn, þú ert víst bæði svangur og þyrstur, býst jeg við“.

„Þakka gott boð“, sagði Ísak.

En þegar karlinn opnaði dyrnar, var allt svo fagurt og fínt þar inni, að Ísak varð alveg steinhissa. Slíka dýrð hafði hann aldrei áður sjeð. Á borð höfðu verið bornar dýrustu krásir; rjómagrautur, dýrasteik og brauð, síróp og ostar, mjöður og vín, og allt sem gott var. Ísak át og drakk allt hvað hann orkaði, og samt varð diskurinn hans aldrei tómur, og hve mikið sem hann drakk, þá lækkaði þó ekkert í glasinu. Karlinn borðaði ekki mikið, og ekki sagði hann mikið heldur. En meðan þeir sátu þarna í makindum, heyrðu þeir hróp og hávaða fyrir utan, þá gekk karl út. Eftir góða stund kom hann aftur inn með synina sína þrjá, en Ísak varð ekki um sel við þá sjón, en karlinn hafði líklega getað sefað þá, því þeir voru allir blíðir og góðir, og svo sögðu þeir, að hann yrði að sitja og drekka með þeim, því Ísak stóð upp er hann var mettur, en ljet eftir þeim að setjast aftur, og svo drukku þeir brennivín og öl og mjöð og urðu góðir vinir, og þeir sögðu, að hann skyldi róa með þeim nokkra róðra, áður en hann færi heim, því ekki veitti honum af að hafa með sjer dálítið af fiski, þegar heim kæmi.

Fyrsta róðurinn fóru þeir í vitlausu veðri. Einn karlssonur sat við stýri, annar í stafni, en þriðji miðskipa, og Ísak varð að standa í austri allan tímann, svo svitinn lak af honum. Þeir sigldu eins og þeir væru ekki með öllum mjalla, aldrei datt þeim í hug að lækka segl, og þegar bátinn hálffylti, skásigldu þeir bárurnar, svo að báturinn tæmdist aftur og vatnið stóð eins og foss út á hljeborða. Nokkru síðar lægði storminn og þeir tóku til færanna. Það var svo krökt af fiski, að sökkurnar komust ekki í botn fyrir mergðinni. Bræðurnir þrír drógu hvern þorskinn af öðrum, Ísak fjekk líka margan vænan, en hann hafði sitt eigið færi, og þessvegna sluppu þeir alltaf frá honum, þegar þeir voru komnir upp undir borðstokkinn, og hann náði ekki einum einasta fiski. Þegar báturinn var hlaðinn, sigldu þeir heim að Útröst, og bræðurnir gerðu að aflanum, og hengdu hann í hjall, en Ísak fór til karlsins og kvartaði yfir því, að hann hefði ekkert veitt. Karl lofaði að það skyldi rætast úr því næst, og fjekk Ísak nokkra öngla, og í næsta róðri veiddi Ísak líka jafnmikið og hinir, og þegar þeir komu að, reyndist afli hans fylla þrjá hjalla.

En svo fór Ísak að langa heim, og þegar hann lagði af stað, gaf karlinn honum nýjan og góðan bát, hlaðinn korni, fataefnum og öðrum nytsömum hlutum. Ísak þakkaði fyrir sig, sem best hann kunni, en karlinn sagði honum, að hann skyldi koma í þann mund er þeir feðgar settu skútu sína á flot, og fara þá með fisk sinn til markaðar í Björgvin og selja hann sjálfur. Jú, þetta vildi Ísak gjarna, og spurði svo hvaða stefnu hann ætti að stýra, þegar hann færi aftur að finna þá feðga í Útröst. „Beint eftir skörfunum, þegar þeir flúga til hafs, þá er stefnan rjett“, sagði karlinn, „og far nú vel og heill“!

En þegar Ísak hafði lagt frá landi og dregið segl að hún, leit hann aftur, en sá þá ekkert annað en hafið svo langt sem augað eygði.

Þegar þar að kom, fór Ísak til þess að hjálpa feðgunum í Útröst og setja skútuna á flot, hann stýrði eftir skörfunum, og komst leiðar sinnar á skömmum tíma. En hann hafði aldrei sjeð eins stórt skip og skútu feðganna, svo löng var hún, að þótt stafnbúinn kallaði til stýrimanns, þá heyrði hann það ekki, og varð að setja einn mann í viðbót miðskipa, til þess að koma boðunum. Fiskinn hans Ísaks settu þeir í framlestina, og hann vann sjálfur að því að flytja hann í skútuna, en hann skildi ekki hvernig á því stóð, að stöðugt kom fiskur í hjallana í stað þeirra sem hann tók, og þegar þeir ljetu í haf á skútunni voru hjallarnir jafn fullir og þegar hann kom.

Í Björgvin seldi hann allan fiskinn og fjekk svo mikið fyrir hann, að hann keypti sjer skútu með öllum útbúnaði, en það ráðlagði karlinn honum. Og seint um kvöldið, áður en Ísak ætlaði að sigla heim, kom karlinn til hans, og bað hann að gleyma ekki þeim sem lifðu eftir nágranna hans, því sjálfur væri nágranninn látinn. „Ef þú annast þessa munaðarleysingj a, muntu verða heppinn með nýja skipið“, sagði karlinn. „Þetta er gott skip“, sagði karlinn, „því hlekkist ekki á og ekki fer mastrið um“. Með því meinti hann, að einhver ósýnilegur væri um borð, og styddi siglutrjeð, ef á reyndi.

Ísak hafði alltaf hamingjuna með sjer upp frá þessu. Hann vissi vel, hvaðan allt hið góða kom, sem hann varð aðnjótandi, og gleymdi heldur ekki að hygla hinum ósýnilega skipverja á skútunni í mat og drykk, þegar hann rjeði skipinu til hlunns á haustin og setti það í naust, og hverja jólanótt sást ljós í skútunni, og heyrðist þar fiðluleikur, þá var dansað í skútunni hans Ísaks.

Источник: Norsk æfintýri. P. Chr. Asbjörnsen og Jörgen Moe. Jens Benediktsson íslenzkaði. Reykjavík. Útgefandi: Bókaútgáfan. 1943.

© Tim Stridmann