Fjörulalli segja menn gangi á land upp í eyjum og við sjóarsíðu á sumum stöðum um brundtíma sauðfjár og nýtist við ærnar, hvar af orsakist ýmislegur van- og ofskapnaður sem ærnar fæða af sér. Hér er einkum ein ey, hólmi er liggur undir Geitareyjar, Mikilnefna kölluð, hvar ekki má láta ær vera um fengitíma. Í fyrra vóru þar nokkrar ær og áttu flestar ýmislegan óskapnað í vor, t. a. m. munn neðan á hálsi, sex—átta fætur, langa róu sem hunds, etc., og svona er víða í Eyrarsveit, að varast verður að fé komi nálægt sjó um þann tíma. Í Saurlátri, byggðri ey í Helgafellssveit, verður þess vegna að koma öllu fé á land um brundtímann. Og þetta á að vera fjörulallanum að kenna, aðrir eigna það „kindinni hans Láfa“ svonefndri.
Nokkrir þykjast hafa séð þessar ófreskjur, en lýsingunni ber ekki saman, svo ég nenni ekki að orðlengja þessar „hégiljur“.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 215.