Hafgýgur

Um hafgýgjuna, vöxt hennar og útlit má lesa í Klausturpósti (mig minnir 1819-20). Hún skal vera kvenmaður í ánauðum, en sú er saga þar til:

Það var einu sinni í fyrndinni konungur og drottning. Þau áttu eina dóttur barna. Þegar hún fæddist mæltu nornir fyrir henni jóðmæli að vana forntíðarinnar. Gáfu þær henni marga hamingju: fagran vöxt og fríðleika, auðsæld og gott gjaforð; reiddist þá ein nornin og þótti of mikið um mælt, en lítið skotið til sinna ummæla; skóp henni því að hún skyldi verða að sjóskrímsli níundu hverja nótt þegar hún giftist og aldrei úr þeim álögum komast nema hún gæti búið svo saman við mann sinn í þrjú ár að hann og enginn annar yrði þessa vís eður og svo spakan að þó upp kæmist hið sanna um hamskipti hennar skyldi hann hvorki opinbera það, reiðast því né týna ást sinni við hana. En ef öðruvísi færi skyldi hún steypast í sjóinn og aldrei úr þeim ánauðum komast; en söngrödd skyldi hún hafa svo fagra að allar skepnur sæfði.

Mær þessi ólst upp í ríki föður síns með fegurð og sóma, ástsæl af alþýðu manna. En er hún kom til aldurs var hún gift ágætum konungssyni. Fór svo fram í tvö ár að hún hvarf úr hvílu hans til óskapanna níundu hverja nótt, en á þriðja ári varð hann þessa var að hún hvarf úr hvílu hans; fór því að hafa nákvæmari gætur á henni. Eina nótt veitti hann henni eftirför. Hélt hún undan til sjávar og að einum hellir. En er hann kom að hellinum sér hann hvar hún er að synda í vatni í hellinum, maður niðrað mitti, en fiskur að neðan. Sneri hann síðan heim og í rekkju sína. Að stundu liðinni kemur hún aftur og atlar í hvílu til bónda síns. Skipar hann henni þá, „illum ormi“, að fara í burtu. Sneri hún þá í burt aftur með gráti miklum. En er hún hvarf var hún þunguð og ól börn sín í sjó, og þaðan eru allar margýgjur komnar.

Hennar er getið í stöku sögum og á hún að vera gjörn á að svæfa menn með sönglist sinni og granda síðan. Sagt er hún geti öll lög tekið nema Te Deum. Skyldi hún einu sinni hafa fylgzt á eftir skipi syngjandi, en þar sofnuðu allir nema einn skipveri. Hann var einstakur listamaður til söngs og söng öll lög með henni. Seinast tók hann upphafið á Te Deum, en þá hvarf hún.

Fleiri kvikindi eiga að vera menn í ánauðum. Svo eru og á meðal skorkvikindanna systkinin kóngsbörn í ánauðum járnsmiðurinn og kóngulóin; hann svo lengi að enginn kvenmaður leysir af honum gjörðina og hún þangað til karlmaður sprettir linda hennar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann