Kvígudalir á Látraströnd

Einu sinni réru fiskimenn frá Höfða í Höfðahverfi á Látraströnd og drógu kvenmann á öngli og fluttu heim með sér að Höfða. Hún var fálát mjög, sagðist eiga heima í sjónum og hafa verið að skýla að eldhússtrompi móður sinnar þá er drógu hana. Hún var alltaf að biðja þá að flytja sig út aftur á sjóinn og hleypa sér niður á sama miði og þeir hefðu dregið sig. En þeir vildu ei og vildu hún ílengdist í landi, því hún var vel að sér um alla hluti. Hún var eitt ár í Höfða. Saumaði hún þá messuklæði þau sem alltaf eru í Laufási síðan. Þegar árið var liðið var hún flutt út aftur því menn sáu að [hún] mundi aldrei una á landi. Hét hún því áður að hún skyldi senda kýr á land upp. Sagði hún að þá er þær kæmu skyldu menn vera viðbúnir að taka þær og sprengja blöðru þá er væri á millum nasa þeirra því ella mundu þær þegar fara burt aftur í sæinn. Síðan var henni sleppt í sæinn á sama miði og hún hafði verið upp dregin. Litlu síðar komu upp tólf kvígur úr sjónum og fóru heim að Höfða. Þær voru sægráar á lit. Heita þar nú Kvígudalir sem þær komu upp. Sex af kúm þessum náðust og þóttu mesta afbragð, en sex sluppu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 128–129.

© Tim Stridmann