Þegar Guðmundur biskup hinn góði vígði Hornbjarg hér á Ströndum og hann átti eftir að vígja hæstu tinda bjargsins sem heita Kálfatindar þá kom grá hönd loðin út úr bjarginu, og heyrði þá biskup að sagt var inni: „Einhvers staðar verða vondar kindur að vera.“ Hætti þá biskup að vígja að sinni; lagði þá vætturin fram fyrir biskup gátu þessa: „Tólf bátar róa fyrir landi og tólf menn á hverjum báti, hver maður með tólf stangir, hver stöng með tólf skutlum og fyrir hvörjum skutli tólf selir, og hver selur höggvinn í tólf stykki; þó verða tveir um totuna að kvöldi, herra, og ráð þú gátuna!“ Þá er sagt að biskup hafi hætt við að vígja bjargið, en getað þó ráðið gátuna, og hafi hann bannað mönnum að síga í þenna part bjargsins eftir sólsetur og hefir það við haldizt til þessa.
Ofannefnd gáta mun hafa átt að benda til þess hversu margir að hafi átt heima í bjarginu.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 216.