Hremmuháls

Á einum stað í Öræfum austur liggur háls nokkur er kallaður er Hremmuháls eða Hremmsuháls; er það grjóthryggur er mýrar liggja að og er alstaðar á honum smámöl nema þrír stórir steinar eru á honum miðjum, og á það að vera skessa er dagaði uppi á hálsinum og á hún að vera stærsti steinninn, en hinir steinarnir eiga að vera: annar hvalkálfur, en annar bjarndýr.

Svo stóð á þegar skessuna dagaði uppi að sóknarpresturinn hafði verið sóttur að þjónusta kerlingu nokkra í sveitinni, gamla og margkunnuga, er átt hafði í brösum við skessuna og hafði hún nú [látið] sendimann skila við prestinn að hann skyldi eigi verða hræddur hvað sem hann sæi á leiðinni því þá (sagði hún) væri úti um sig. Leið prests lá um hálsinn og var nótt þegar þeir fóru yfir hann. Þeir sjá kerlingu heldur stórskorna koma neðan frá sjó og halda upp til fjalla og hafði hún bjarndýr á baki, en hvalkálf í fyrir, og var það Hremmsa. Hún var langstíg mjög og stundi þungan og gætti eigi mannanna fyrr en þau komu hvert að öðru. Hún leit þá upp og hvessti augun á þá og brá þá sendimanni svo við að hann hné niður dauður. Prestur fór nú að tala við hana og héldu þau því áfram þangað til kerling leit upp, og æpti hún þá: „Dagur í austri, en dauð er þó kerling;“ og meinti hún með því kerlingu þá er prestur var sóttur til. Og í þessari svipan varð skessan að steini. Sagði prestur svo síðan að hann hefði eigi orðið hræddur, en þó hefði sér brugðið nokkuð við þegar maðurinn hné niður við hliðina á honum og mundi það hafa flýtt dauða kerlingarinnar er hann var sóttur til.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 203–204.

© Tim Stridmann