Þá átti Leppalúði holukrakka einn; það var Skröggur karl sem í fáu var föðurbetringur. Svo bar að einu sinni að Grýla varð sjúk, lagðist í rekkju, lá heilt ár og mátti sig ekki hreyfa. Leppalúði gat þá ekki einn stundað hana, börnin og heimilið, og þó sízt börnin, „sem bæði voru þybbin, þverlynd og körg“ og varð því að fá sér aðstoð og fékk til þess stúlku þá er Lúpa hét.
Svo segir í Skröggskvæði að hún hafi verið „dáfögur dyggðug og fín". Og með því hún var framsýn og þjónaði vel börnum Leppalúða varð hún honum svo geðþekk að hann gekk í sæng með henni og gat við henni Skrögg. Skömmu síðar komst Grýla á fætur aftur; varð hún þá æf er hún sá hvernig komið var svo hún rak Lúpu burtu og son hennar og vildi þeim einkis góðs unna né augum líta þó það væri Leppalúða bónda hennar mjög á móti. Þá gaf Leppalúði þeim mæðginum eyland eitt til uppeldis og bátskip til að leita sér á bjargræðis.
Skröggur ólst upp hjá móður sinni þangað til hann var tólf vetra, þá missti hann hana. Var hann eftir það þrjá vetur einn á eynni unz þar bar að Hang herkóng úr Álfheimum. Fór þá Skröggur í fylgd með honum og nam að honum kunnáttu og listir. Hangur var kvæntur og átti konu þá sem Gnýpa hét; þeirra dóttir var Skjóða. Skröggur lagði ástarhug á hana enda var hún „dávæn, dygg og trú“. En er hann bar upp bónorðið við Hang varð hann svo reiður að hann réð sér ekki. En af því Skjóða unni ekki síður Skrögg en hann henni nam hann hana burtu frá Hang kóngi með „dimmrúnum“ og hafði hana með sér í Eyrarhyrnu.{1} Þau Skröggur áttu saman 22 börn alls; af þeim dóu fyrst fimmtán, en hin sjö sem eftir voru dóu seinna úr bólunni. Þá lagðist og Skjóða svo þungt að hún gat ekki fötum fylgt og af því Skröggur var þá og orðinn uppgefinn fór hann að beiðast beininga, en í því kippti honum í kynið að hann beiddi um keipótt börn. en lét sér þó lynda eins og þau Grýla og Leppalúði ef honum bauðst annað sem honum þótti hnossgæti í.
Frá afdrifum þeirra Grýlu og Leppalúða, jólasveina, Skröggs og Skjóðu kunnum vér ekkert að segja enda er það líkast að þau lifi enn ef til vill, en afreksverkum þeirra er lýst i kvæðunum sem um þau hafa verið ort.{2}
1. Eyrarhyrna er fjall hjá Hallbjarnareyri í Snæfellsnessýslu og liggur þá nærri að álykta af því að einhver þar vestra hafi kveðið Skröggskvæði.
2. Af Skrögg er til eitt kvæði langt, 88 erindi, og er úr því tekið það sem hér er frá honum sagt. Um Leppalúða eru og til tvö kvæði, 25 erindi annað, en hitt 39, sem ég hef séð; en Grýlukvæði veit ég ekki hvað mörg eru til; flest eru þau sem ég hef séð „dragmælt“ að kveðskap, eins og Skröggskvæði og Leppalúðakvæði. Enn skal ég geta þess að eftir að ég var búinn með þetta atriði barst mér sú sögn úr Grímsey nyrðra að barnafæla héti þar hvorki Grýla, Leppalúði né Skröggur, heldur Klapparkarl. Um hann er þessi vísa:
„Karlinn undir klöppunum,
klórar hann sér með löppunum;
baular undir bökkunum,
og ber sig eftir krökkunum
á kvöldin.“
Engin önnur afreksverk hans telur séra Jón Norðmann sem var prestur í Grímsey.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org