Fyrir framan Fjörð í Mjóvafirði er gil eitt sem kallað er Mjóvafjarðargil. Þar hafðist fyrr meir við skessa sem síðan hefur verið kölluð Mjóvafjarðarskessa og var hún vön að seiða til sín í gilið prestana frá Firði; gjörði hún það á þann hátt að hún fór til kirkjunnar þá er presturinn var uppi í stólnum, og brá til annari hendinni fyrir stólglugganum utanverðum; urðu prestarnir þá ærir og sögðu:
„Takið úr mér svangann og langann;
nú vil eg að gilinu ganga.
Takið úr mér svilin og vilin;
fram ætla eg í Mjóvafjarðargilið.“
Hlupu þeir að svo mæltu út úr kirkjunni fram að gilinu og sagði eigi af þeim úr því.
Eitt sinn fór ferðamaður um gilið og sá fyrir ofan sig skessuna þar sem hún sat á klettsnös og hélt á einhverju í hendinni; kallaði hann þá til hennar og mælti: „Á hverju heldurðu þarna, kerling mín?“ „Ég er nú að kroppa seinast um hauskúpuna af honum séra Snjóka,“ mælti skessan. Sagði maðurinn tíðindi þessi og þóttu mönnum hin verstu.
Prestarnir fóru þannig hver á fætur öðrum og til vandræða tók að horfa því prestar urðu tregir til að fara að Firði er þeir vissu hver meinvættur var í gilinu. Þar kom loks að enginn ætlaði að fást; en þá bauðst prestur nokkur til að fara þangað, þótt eigi væri honum ókunnugt hver vogestur var í gilinu. Áður en hann messaði í fyrsta sinn í Firði var hann búinn að leggja undir við menn sína hvað þeir skyldu til bragðs taka ef að þeir sæju að nokkurt fát kæmi á sig í stólnum; hann mælti svo fyrir að sex skyldu þá hlaupa á sig og halda sér, aðrir sex skyldu hlaupa að klukkunum og hringja þeim, en tíu skyldu hlaupa á hurðina. Jafnframt valdi hann þá menn er þetta skyldu gjöra hvað um sig. Þegar er prestur var kominn upp í stólinn kom hendin upp á gluggann og iðaði fyrir utan hann, ærðist þá prestur og mælti:
„Takið úr mér svangann og langann“ o. s. frv.
Síðan ætlaði prestur að hlaupa út, en þá stukku þeir sex, sem til þess voru kvaddir, á hann og hinir sex hringdu klukkunum og hinir tíu hlupu á hurðina. Þegar skessan heyrði til klukknanna tók hún til fóta; stökk hún á kirkjugarðinn og sprakk stórt skarð í garðinn undan fæti hennar og mælti hún þá: „Stattu aldrei.“ Skessan hljóp fram í gilið og hefur eigi síðan orðið við hana vart. En síðan hefur aldregi í skarði því tollað er skessan sté í kirkjugarðinn hversu vel sem í það hefur verið hlaðið.
NB. Hermann nokkur bóndi í Firði dáinn circa 1830 kvaðst muna eftir járnskó skessunnar sem fallið hafði af henni þá er hún sté skarðið úr garðinum; var skórinn hafður fyrir sorptrog.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 146–147.