Inn millum Sólheimanna í Mýrdal gengur gil það er heitir Húsagil; þar í gilinu innanverðu er hellir sá er Skessuhellir heitir. Það eru upptök til nafns þessa að þar bjó skessa ein. Lítið hafði hún gjört mönnum til móðs. Einu sinni fór hún að ganga á rekana. Ekki er getið um að hún hafi fundið nokkuð á rekunum, en á heimleiðinni varð hún naumt fyri, því hana greip jóðsótt þar á leiðinni.
Á Sólheimasandi er steinn mikill; þar lagðist hún á og fæddi barn sitt. Þar kom maður til hennar og beiddi hún hann að liðsinna sér. Maðurinn gjörði það. Var rauð rák yfir um hönd mannsins alla ævi síðan, en hún sagði hann skyldi aflmeiri í henni.
Hún beiddi hann að lofa sér að ríða hestinum og hjálpa sér heimleiðis. Hann segir: „Stíg þú á bak stórkona, en sligaðu ekki hestinn.“
Hún strauk höndum um hrygg hestsins og fór síðan á bak. Reiddi hann hana áleiðis heim til sín. En er hún steig af baki var alblóðugt bakið á hestinum. Hún bað hann hafa þökk fyri, en hesturinn mundi aldrei uppgefast.
Steinn þessi er síðan kallaður Skessusteinn og er enn á sandinum og laut ofan í hann.
Annað sinn fór hún á fjöru, en er hún kom af fjörunni mætti henni maður sá er Pétur hét. Réðist hún á hann; fór hann heldur halloka. Urðu það úrræði hans að hann greip hægri hönd sinni í magaskegg hennar og felldi hana með því.
Bað hún hann þá að gefa sér líf, hvað hann gjörði. En er hún var upp staðin þakkaði hún honum lífgjöfina; sagðist ekki geta að því gjört þó hægri hönd hans yrði blá, en helmingi aflmeiri skyldi hann í henni verða.
© Tim Stridmann