Áður til forna var verstaða í Náttfaravík utan Köldukinn. Þess er eitt sinn getið að vermenn héldu þar til útróðra, ekki er getið hvað margir, en einn bar af öllum að afli og atgjörvi, Ingimundur að nafni; hann var höfði hærri en hinir allir, ófeilinn og hugrakkur, en þó gæfur í skapi.
Í hellir einum í hömrunum upp af víkinni bjó skessa ein sem dögum oftar var þar á ferð, en gjörði engum mein. Niðri af hellismunnanum var hvannstóð mikið upp undir berginu sem vermenn vildu ná til, en áræddu ekki fyrir skessunni.
Samt var það eitt sinn að þeir tóku sig margir saman og fóru upp til hvannstóðsins og tóku til að grafa. Þetta gekk lengi svo ekki bar á neinu, og búnir að grafa mikið af rótum sem þeir fleygðu saman í einn bunka. Þeir voru nú gemsmiklir, kváðu skessan mundi hafa sofnað fast, þar hún skipti sér ekki af starfi þeirra.
En þá hæst lét kátína þeirra kom skessan fram á bergið og skripaði yfir allan rótabunkann, en þeir allir lafhræddir hlupu hvor eftir sínum fráleika heim að skálum sínum og þóktust eiga fótum fjör að launa.
En Ingimundur, þá þeir fundu hann, gjörði sér gaman að rótagrefti þeirra, kvað þá hafa kvennahug en ekki kalla, sagðist ekki trúa að skessan gjörði sér glettur þótt hann færi í hvannstæðið, sér þækti fýsilegt að reyna það.
Hann lagði af stað einn dag upp í hvannstæðið og hafði í hendi sér öxi sem hann átti, lagði hana hjá sér og tók til að grafa. En að stund liðinni kom skessan fram á bergið upp yfir honum og sagði: „Ætlarðu lengi að vera að grafa, Mundi?“
Hann leit upp og sagði: „Þangað til buddurnar eru fullar, kelling.“
Hún hvarf svo inn í hellinn, en hann hélt fram starfa sínum. Að nokkrum tíma liðnum kom hún aftur, talaði sömu orðum, en var reiðuglegri: „Ætlarðu lengi að vera að grafa, Mundi?“
Hann svaraði byrstur: „Þangað til buddurnar eru fullar, kelling.“
Hún hvarf svo inn aftur, en hann hélt fram að grafa.
Í þriðja sinn kom hún og var þá fasmikil og illileg og sagði: „Ætlarðu lengi að grafa, Mundi?“
Hann gjörði sig reiðuglegan og sagði: „Þangað til buddurnar eru fullar, kelling.“
Hún varð þá hægri í bragði og sagði: „Hefurðu öxina þína, Mundi?“
Hann þreif hana upp og rétti til hennar og sagði: „Það skaltu sjá að hún er hérna.“
Þá sýndist honum sem henni renna öll reiði, og sagði: „Grafðu svo sem þú vilt, Mundi,“ og fór svo inn í hellinn.
Ingimundur hélt fram greftinum og hafði heim fullbyrði af rótum; sagði lagsbræðrum sínum að svo hefði farið sem sig hefði grunað að skessan mundi ekki glettast við sig. Héldu menn að þau mundu hafa fundist áður, því eins var og hún hefði beyg af honum. Svo er ekki sagan lengri.
© Tim Stridmann