Bóndi nokkur [var] á Vestfjörðum sem hélt nokkra húskalla meðal hvurra einn er nefndur Jón og hafði að nokkru leyti alizt upp hjá bónda. Bóndi þessi var vanur að senda mann frá sér á hverju hausti til fiskiróðra suður á land. Eitt haust þegar bóndi var fyrir skömmu búinn að senda einn af húsköllum sínum suður til fiskiróðra [ber svo við] að Jón kemur að máli við fóstra sinn og segir sig langi til að fara suður til fiskiróðra í vetur, því Jón hafði vanizt sjóarútgjörð og var orðinn góður sjómaður. Bóndi letur hann þess, en samt talaðist svo til að hann fekk fararleyfi. Síðan var hann búinn til ferðarinnar og var látinn hafa með sér tjald og tvo hesta með föggum, en einn til reiðar. Bóndi biður hann að hraða sér svo sem hann geti til að vita hvert hann nái ekki lestamönnunum sem fóru suður daginn fyrir, meðal hvurra að var maðurinn frá bónda. Jón segist ekki þurfa að verða neinum samferða, hann segist rata, því hann hafði farið áður suður. Síðan kveður hann bónda og heldur síðan á stað og náði um kvöldið undir Holtavörðuheiði, en þeir sem suður fóru á undan honum höfðu farið þaðan um morguninn og var hann svo þar um nóttina. Morguninn á eftir fór hann upp á heiðina, en þegar var komið fram á miðjan dag fór að drífa, en þegar hann var nokkra stund búinn að halda áfram fann hann það hann var orðinn villtur; samt hélt hann áfram fram undir miðnætti, því það lýsti dálítið af tungli; þá kom hann í góða grashaga og þar áði hann og setti niður tjald sitt.
Morguninn á eftir var snjór kominn upp á mitt tjald, en hann lét það ekki hindra ferð sína, tekur hestana, leggur á þá og heldur síðan á stað og segir svo ekki af ferðum hans fyrri en eftir þriggja dægra villu; kom hann í djúpan og þröngan dal allan skógi vaxinn og náði snjórinn þar ofan í miðjar brekkur, og þar áði hann um nóttina. Daginn á eftir hélt hann út dalinn. Kindur sá hann í dalnum og sýndust honum þær ekki vanar mönnum. Dalurinn breikkaði einlægt eftir því sem út ettir dró. Á áliðnum degi kom hann út að sjó og var þar dalurinn breiðastur og mikið undirlendi beggja vegna árinnar sem rann eftir dalnum. Það gekk vík upp í dalsmynnið, en upp eftir miðri víkinni var stórt stöðuvatn og í það rann dalsáin, en á milli stöðuvatnsins og víkurinnar var hár malarkambur. Í fjörunni sá hann bát ekki mjög stóran, en sterklegan. Í sandinum sá hann mannsför og voru þau á lengd fet hans og þvers fótar. En á bakkanum stóð hjallur byggður á fjórum grjótstólpum og í honum var lítils háttar af fiskmeti. Há björg sá hann sín hvorumegin við víkina og stóðust rétt á. Í ytri björgunum sá hann einlæga hellra og hélt hann að sér væri bezt að berast fyrir í stærsta hellrinum. Síðan heldur hann þangað og sprettir af hestunum og ber faranginn inn í hellirinn. Honum fannst eins og það leggja fyrir reykjarlykt fram úr hellrinum, en hann gaf sig ekki neitt um það, tekur tjald sitt, vefur því utan um sig og sofnar. Hann vaknar svo við það að það er ýtt við honum fæti og sagt: „Viltu ekki fá þerruð föt þín, maður, og koma með mér; þig skal ekkert saka.“ Jón segir: „Hvert er það karlmaður eða kvenmaður sem við mig talar?“ „Frekar er ég kvenkyns en karlkyns, og komdu inn til mín og fáðu þerruð föt þín; þú ert maður hrakinn og lengi búinn að vera úti í illveðrum; ég skal ekkert mein þér gjöra.“ Þá stendur Jón upp og sér hjá sér standa kvenmann mikinn vexti. Hann heilsar henni. Hún segir ef hann hafi þurr föt með sér þá skuli hann koma með þau; hún segist ekki hafa föt sem honum séu mátuleg. Hann gjörir svo. Síðan leiðir hún hann inn með sér. Hann sá að eldur brann á skíðum og stóran ketil á hlóðum og við eldinn settist tröllskessan og var í bjarndýrsstakki síðum að framan, en styttri í bak. Hann spyr svo hana að heiti. Hún kvaðst heita Skinnhetta, „en systir mín heitir Skinnhúfa og er í fremri björgunum.“ Jón spyr hana að hvurt þær hafi verið hér lengi eða hvert þær séu hér uppaldar. Hún segir: „Nei, foreldrar okkar bjuggu suður í tröllaheimi og voru gjörð útlæg þaðan vegna ráns og stuldurs og fluttu sig svo til Grænlandsóbyggða og voru þar um tíma. Einu sinni voru þau á sjó; þá datt á þau óveður svo þau hröktust upp að einum eyðistað sem þeim leizt byggilegur. Þegar veðrinu slotaði sóktu þau okkur og það litla sem þau áttu, og ætluðu að flytja sig þangað, en þá datt attur á þau óveður svo okkur hrakti upp í þessa eyðivík sem ég held að sé langt frá öllum mannabyggðum, og tókum við okkur bólfesti í fremri björgunum og var það mestpart lífsbjörg okkar silungsveiðin sem er hérna í stóra vatninu og aldrei þrýtur. Líka lögðum við okkur til fæðu féð sem kom hingað í dalinn. Líka stunduðum við sjávarútgjörð þó við hefðum lítil áhöld til þess. En þegar foreldrar okkar voru dauð þá varð systir mín svo vond við mig að ég fékk öngu ráðið. Hún er líka verra tæis en ég því ég er kóngborin í aðra ættina. Svo óx hatur hennar til mín að hún bæði barði mig og svelti mig og svo kom að því að mér varð ekki við vært hjá henni vegna hungurs svo ég ráfaði í burtu frá henni og varð mér þá reikað að þessum ytri björgum og tók mér bólfesti í þessum hellri því hann er stærstur af þeim sem í þeim eru. En þegar ég var komin hingað fyrir skömmu þá rak steypireiði undir björgin til systur minnar svo ég fór til hennar og bað hana að lofa mér að vinna mér til hlutar, en þess var enginn kostur. Samt varð hún fegin að láta mig hjálpa sér til svo ég var hjá henni til kvöldsins, og þá rak hún mig í burtu synjandi svo ég fór grátandi frá henni, en á leiðinni heim til mín datt mér í hug þegar ég sá tunglið og stjörnurnar á loftinu að það hlyti að vera einhver mikils háttar vera sem hafi skapað jörðina og himintunglin og mennina og dýrin bæði í vatninu og á landinu; gjörði ég þá þessa eftirfylgjandi vísu:
Láttu reyði reka,
ríkur, svo mér líki
beint fyrir björgum ytri,
buðlung himintungla.
Síðan gekk ég heim í helli minn og svaf af um nóttina. En um morguninn á eftir þegar ég kom út þá var steypireyður rekin undir björgin til mín. Þá varð mér reikað undir björgin til systur minnar og lá hún þá dauð hjá hvalnum. Síðan tók ég það litla sem hún átti, og flutti heim í helli minn.“
Um kvöldið segir hún við Jón: „Hvert viltu heldur, karlmaður, liggja á hellisgólfinu eða sofa hjá mér?“ Hann segist heldur vilja vera hjá henni. Það er ekki að orðlengja það að hann var þarna í hellinum viku því það létti ekki fyrri upp illveðrinu. Jón sagði henni hvurnin mennskir menn færu að slá grasið og geyma það til vetrarins og gefa það gripunum, og þókti henni ómissandi að kunna að því og bað hann að kenna sér það, svo hann gjörði það. Svo segir hún við hann: „Þegar þú ert kominn suður þá skaltu reka hestana“ — á þann stað sem hún til tók. — „Ég skal sækja þá og sjá um þá í vetur því það er víst allra bezta útiganga hér í dalnum fyrir hesta því það er nóg gras í honum og gott skýli; svo skal ég hafa einhver ráð til þess að koma þeim til þín í vor áður en þú ferð heim til þín. En þegar þú kemur að sunnan attur þá ætla ég að biðja þig að færa mér einn hest af fiski.“ Svo gaf hún honum stakk úr bjarndýrsskinni og segir að hann skuli láta hann skýla sér þegar hann sé á sjónum. Síðan heldur Jón á stað og hún fór með honum þangað til þau sjá ofan í byggð. Þá segir hún: „Grunur minn er það að ég fari ekki einsömul af samveru okkar og ef svo er sem mig grunar þá ætla ég að biðja þig að gangast við faðerni.“ Svo heldur hún heim til sín, en hann fór til fiskivers; svo fór hann með hesta sína þangað sem skessa til tók. En um vorið viku áður en hann ætlaði heim til sín þá var það einn morgun þegar hann kom á fætur að hestarnir voru komnir og voru mikið feitari en þeir voru um haustið. En áður en hann fór á stað þá keypti hann sér hesta og hélt síðan á stað og hafði fisk á þremur. Svo segir ekkert af ferðum hans fyrri en hann kom í víkina til skessunnar og tók hún þá vel á móti honum. Hann gefur henni svo fiskinn sem var á þremur hestunum því hann hafði fiskað vel um veturinn. Hún var því mjög fegin. Síðan tekur hún til máls og segir: „Ég get sagt þér það að ég er með barni og ert þú eins sannur faðir að því sem ég er móðir.“ Hann segist muni kannast við það. „En ef það verður stúlka sem ég geng með sem ég held að verði þá skal ég fóstra það upp, en ef það verður piltur hvað ég héld þó ekki verði, en samt veit ég það ógjörla, þá skal ég sjá um hann þangað til hann er tíu ára, en eftir það verður þú að sjá um hann. Ég ætla að biðja þig að koma til mín nokkru eftir það að þú ert kominn heim.“ „Ég veit ekki hvert húsbóndi minn vill það,“ segir Jón, „því ég er trúlofaður dóttur hans.“ Hún segir: „Það var ekki mín meining að ég vildi að þú kæmir hingað til veru, heldur það að ég hef gaman af að finna þig. Líka ætla ég að biðja þig,“ segir hún, „að koma barninu undir skírn.“ „Hvurnin ætlarðu að koma því til mín?“ segir Jón. „Einhver ráð munu verða til þess,“ segir hún.
Svo slíta þau talið og hann heldur á stað og segir ekkert af ferðum hans fyrri en hann kom heim, en stuttu eftir það vildi bóndi að hann færi að gifta sig dóttur sinni, en skömmu eftir það að hann giftist segist hann ætla suður á land og fór með þrjá hesta með fiski og nokkrar ær. En á leiðinni keypti hann sér orf og hrífu og barnsvöggu, linnti svo ekki ferð sinni fyrri en hann kom í víkina til skessunnar og færði henni þetta og kenndi henni svo að slá og raka. Svo hélt hann heim til sín aftur. Það segir svo í sögu þessari að kona Jóns hafi verið öllum kvenkostum prýdd, en það hafi verið tvennt að henni og það er það fyrra að hún hafi verið mjög forvitin og það annað að hún hafi verið stórgeðja. Einn sunnudag voru margir við kirkju, meðal hvurra Jón var einn og hans kona — að þegar var komið fram á miðjan embættistíma að maður gekk út úr kirkjunni og kemur inn aftur að vörmu spori og hvíslar að Jóni að það sé dálítið úti fyrir kirkjudyrum, „sem sagt er að þú eigir“. Jón gengur út og sér að barnsvagga stendur úti fyrir kirkjudyrunum og í henni var frítt og efnilegt meybarn og var undurskrautlega klætt með gullmen um hálsinn. Hann tekur svo barnið upp og fer með það inn í kirkjuna og biður prest að skíra það og segir það skuli heita Ásdís og nefna hana dóttur sína. Eftir það að búið var að skíra það bar hann það út og lagði það í vögguna, en skessan kom og flýtti sér á stað með það, því á meðan að barnið var skírt stóð hún á kórbaki svo menn sáu hana út um gluggana. En þegar Jón og kona hans voru á leiðinni heim frá kirkjunni fór hún að spyrja mann sinn hvurnin hefði staðið á barninu sem hann hefði beðið prestinn að skíra í dag. Hann taldist lengi undan því að segja henni það, því hann hélt að það yrði skilnaðarsök þeirra, en hann gat ekki komizt undan því og sagði henni söguna eins og til hafði gengið og það þar með að tröllskessan væri lífgjafari sinn því hann hefði komið nær dauða en lífi í hellinn. Hún sagði að honum væri bezt að taka barnið og fóstra það upp. Hann segir að hann muni gera það. Eftir þetta færði hann skessunni tólf sauði á hverju ári og þar með klæðnað handa sér og barninu og fleiri nauðsynjar og vitjaði þrisvar um hana á ári hverju og hjálpaði henni til að heyja handa fénu. Það segir svo í sögu þessari að hann hafi orðið mesti auðnu- og gæfumaður. En ekki er getið um annað en að hjónunum hafi komið vel saman.
Einu sinni sem oftar þegar Jón fór að finna skessuna [kemur svo] að hún segir við hann: „Nú er dóttir mín sjö ára eins og þú veizt og er ekkert búin að læra í kristindómi sínum. Vil ég því þú takir hana til þín þó mér þyki mikið fyrir að skilja við hana og kennir henni kristileg fræði því ég vil ekki sitja af henni sæluhnossið að læra það að trúa á Krist.“ Jón segist ekki vilja taka hana frá henni og kenndi henni að lesa og fékk henni svo lærdómsbók og sagði henni að læra hana. Þegar hún var komin undir fermingu bar svo við að Jón kom að finna þær mæðgur sem oftar að þegar hann kom inn í hellinn sá hann að stúlkan stóð grátandi hjá rúmi móður sinnar því tröllskessan var þá lögzt banaleguna. Svo tók hún til máls og segir við Jón: „Ég ætla að biðja þig að vera hér hjá mér á meðan ég er að deyja og þegar ég er dauð að grafa mig skammt frá helli mínum; svo skaltu taka það litla sem er í helli mínum og flytja það heim til þín. Líka ætla ég að biðja þig að annast um dóttur mína og láta hana ekki gjalda þess að hún er út af tröllum komin. Óska ég þér svo tímanlegrar og eilífrar farsældar.“ Síðan skildi hún við og hann gjörði allt sem hún hafði fyrir hann lagt. Svo tók hann það er hún hafði átt og hélt á stað, og segir svo ekkert af ferðum þeirra fyrri en þau komu heim. Þá segir Jón við konu sína: „Ég ætla að biðja þig að vera þessari stúlku eins góð og þú ættir hana sjálf.“ Og hún gjörði það líka, því hún lét það sama yfir hana ganga og börnin sín. Þegar stúlkan var fjórtán ára að aldri komst hún í kristinna manna tölu, en þegar hún var undir það tvítug giftist hún vænum manni og varð einhver með þeim vænstu konum á Vesturlandi og hélt vel trú sína til dauðadags. En af Jóni er það að segja að hann varð allra mesti gæfumaður og útenti tíð sína á Vesturlandi. Lýkur svo hér að segja af Skessu-Jóni.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 271–275.