Hólsá kemur upp í Tungudal í Bolungarvík, rennur skammt og kemur til sjóar í miðri víkinni. Efst í víkinni norðan við ána er Tunga, vel húsaður bær, sumir segja Þjóðólfstunga.
Þuríður sundafyllir átti bróður þann er Þjóðólfur hét. Hann bað Þuríði fá sér land í Bolungarvík, en hún leyfði honum svo mikið land sem hann gæti girt fyrir á dag. Hann fer til og leggur garð frá Stiga og vildi girða fyrir Hlíðardal og Tungudal, en komst ekki lengra en á miðjan Tungudal um daginn, og sjást þess merki enn hvar hann lagði garðinn. Þjóðólfur kallaði sér báða dalina, en Þuríður þóttist eiga þann dalinn er eigi var girt fyrir til fulls og varð so að vera sem hún vildi. Þetta líkaði Þjóðólfi stórilla og hugðist að hefna sín og stela yxni sem Þuríður átti á Stigahlíð. Þuríður varð vör við er hann gekk á hlíðina og fór þegar eftir honum, en hann tók yxnið og vildi leiða heim. Þau mættust þar sem nú heitir Ófæra, innst á hlíðinni. Hún réð þegar á hann og vildi taka yxnið, en fékk ekki atgjört. Varð hún þá so reið að hún lagði það á hann að hann yrði að steini þar sem flestir fuglar á hann skiti, en hann lét það um mælt á móti að hún yrði að standa þar sem vindur nauðaði mest á og stendur hún nú efst á norðurhorninu á Óshlíð (relata refero1).
Þjóðólfur varð að kletti og valt fram í sjóinn og lenti á klöpp sem upp úr stóð. Sá klettur var jafnan alþakinn af fuglum og stóð þar þangað til 1836 um haustið, hvarf hann í logni og ládeyðu eina nótt svo enginn vissi hvað af varð. Allir muna Bolvíkingar eftir Þjóðólfi og vissu gjörla hvar hann stóð því hann var stakur og róið framhjá honum í hvurt sinn er á sjó var farið, og fullyrða allir í einu hljóði að so sé grunnt allt í kringum klöppina sem hann stóð á að hann geti þar hvurgi legið, en segja hann fyrir því hafa horfið að þá hafi verið úti álögutíminn (risum teneatis).2 Gjörla sást merki hvar hann stóð á skerinu og hefur hann verið rúmra fimm faðma á þann veginn sem niður hefur snúið…
Sunnan megin árinnar er Landa-Leifur fram í Tungudal. Neðar með ánni er Hóll, norðan undir Erninum [Ernir, fjall að miðri Bolungarvík]… Bærinn stendur á háum og víðum hól… það segja menn að héti fyrrum Lynghóll. Á þann hól er sagt að Þuríður sundafyllir léti reka kýr sínar. Það er og sagt að jafnan er henni varð litið til hólsins sýndist henni sem ljós brynni þar. Það lagði hún fyrir siðaskiptum og fékk af því so mikinn óþokka á hólnum að hún lét ekki framar þangað beita kúm sínum og er mælt hún léti samstundis drepa eina af kúm sínum sem óvart komst á hólinn og kasta út slátrinu.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 200–201.