Fanginn og sýslumaðurinn

Árni Jónsson hét maður sem átti barn með kven[manni] er honum var of skyld að ætt til þess það þykti saklítið, og lá því við líftjón eða þvílíkt straff. Hann var bæði mikilmenni til afburða og allvel þokkaður af góðgjörnum mönnum. Þegar þessi tilburður varð opinber stefndi sýslumaður honum til sín. Árni hlýðir stefnunni, en biður sýslumann um linkind, en það segist sýslumaður ekki geta og setur Árna í létt varðhald í lofti eða hólfi undir baðstofuloftinu.

Um kvöldið er fólkið að tala um ástand Árna í baðstofunni; sýslumaður tekur undir það og segir að hefði hann verið í öðrum eins vandræðum skyldi [hann] hafa stolið reiðhesti sýslumannsins og farið það hvatasta vestur á Hornstrandir og breytt nafni sínu, en alstaðar hvar hann kom kvaðst hann vera að leita sér að góðri vist.

Um morguninn er Árni horfinn og hestur sýslumanns. Sýslumaður [lætur] sjálfsagt lýsing og leitir ganga eftir Árna, en þó ekki strangari en svo, að [hann] kemst leið sína; og fara ekki sögur af honum fyrr en hann um næturtíma í tunglsljósi er á Sprengisandi; þar sér hann að tveir menn koma ríðandi niður frá fjalli, mikið hvatlegir. Hann vill forðast þá, en þeir ríða frískum hestum, og helzt annar. Þeir kalla eftir honum og herða reiðina, so annar verður nokkuð undan hinum, og dregur Árna upp og vill seilast í taum hests hans með krókakeyri sínu; en Árni tekur flösku upp hjá sér og setur á vanga hins so hún mölbrotnar, en maðurinn steypist af hestinum; í því þrífur Árni hestinn og hvetur nú ferðina; en hinn sem síðar kom fer að stumra yfir lagsmanni sínum er féll af hestinum. Árni fer sinn veg með hestinn þar til hann kemur á Hornstrandir og nefnir sig Einar Jónsson og kemst í góðan þokka fyrir dugnað sinn [og] mannlund — og endar svo þessi saga.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 316–317.

© Tim Stridmann