Fjalla-Eyvindur

Eyvindur var Jónsson og Margrétar; þau bjuggu í Hlíð í Hrunamannahrepp í Árnessýslu; fleiri voru börn þeirra hjóna, en ekki koma þau við þessa sögu nema Eyvindur og Jón bróðir hans eða hálfbróðir, faðir Gríms stúdents sem er nýdáinn áttræður og hafði búið allan sinn búskap á sömu jörð, Skipholti, eftir föður sinn. Ógjörla vita menn nær Eyvindur er fæddur, en líklegt er að hann hafi fæðzt öndverðlega á 18. öld. Eyvindur ólst upp hjá foreldrum sínum í Hlíð og dvaldist í Hreppnum til þess hann var orðinn fulltíða maður. Eftir það fór hann að Traðarholti í Flóa og varð þar fyrirvinna. Sagt er að hann hafi ekki orðið þar mosavaxinn og orðið að fara þaðan aftur fyrir þjófnaðaróknytti, og fylgdi sá ókostur honum jafnan síðan. Í fyrstu er sagt hann hafi hnuplað osti úr poka frá förukerlingu og verið þá staddur í Oddgeirshólum, en hún hafi lagt það á hann að hann skyldi aldrei verða óstelandi upp frá því; hafi þá annaðhvort Eyvindur eða þeir sem að honum stóðu viljað kaupa af kerlingunni að taka ummæli sín aftur. Hafði hún þá sagt að það gæti hún ekki því ummæli yrðu ekki aftur tekin, en þá bót skyldi hún leggja í máli að hann kæmist aldrei undir mannahendur, og þótti hvort tveggja rætast á honum ávallt síðan.

Þegar Eyvindur fór frá Traðarholti segja það bæði Árnesingar og Vestfirðingar að hann hafi farið vestur á Vestfirði og komizt þar að búhokri með ekkju þeirri sem Halla hét og börnum hennar og búið þar, sumir segja á einbýlisjörð til fjalla, en aðrir á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum og Grunnavíkursókn, og átt allgott bú, og segja þó sumir að séra Snorri Björnsson hafi gefið þau Eyvind og Höllu saman þegar hann var prestur í Stað á Aðalvík (1741–57).

Höllu þótti í mörgum hlutum illa farið; bæði var hún harðlynd, hafði illt orð á sér og þótti blendin í trú svo að hún sótti nálega ekki kirkju eða hún stóð fyrir utan kirkjudyr meðan messa var flutt. Henni er svo lýst að skapnaði og háttum á alþingi 1765 að hún væri „lág og fattvaxin, mjög dimmlituð í andliti og höndum, skoleygð og brúnaþung, opinmynnt, langleit og mjög svipill og ógeðsleg, dökk á hár, smáhent og grannhent, brúkaði mikið tóbak.“ Aftur þótti Eyvindi margt vel gefið, blíðlyndi og glaðlyndi og leikfimi svo að hann var sundmaður góður og glímumaður, manna fráastur á fæti og brattgengastur, kunni svo vel handahlaup að hann dró undan fljótustu hestum og kom honum það oft að góðu gagni þegar hann þurfti að forða lífi sínu og honum var veitt eftirför; slyngur var hann og úrræðagóður. En svo er honum lýst á Öxarárþingi 1765: „Hann er grannvaxinn, með stærri mönnum, útlimastór, nær glóbjartur á hár sem er með liðum að neðan, bólugrafinn, toginleitur, nokkuð þykkari efri en neðri vör, mjúkmáll og geðþýður, hirtinn og hreinlátur, reykir mikið tóbak, hæglátur í umgengni, blíðmæltur og góður vinnumaður, hagur á tré og járn, lítt lesandi, óskrifandi, raular oft fyrir munni sér rímuerindi, oftast afbakað.“

Ekki er auðið að sjá hversu lengi þau Eyvindur hafi búið búi sínu á Vestfjörðum áður en þau struku í óbyggðir né heldur fyrir hverjar sakir þau struku, því sinn segir hvað um það, og þó ber flestum saman í því að Eyvindur hafi goldið þar góðmennsku sinnar eða klækja konu sinnar sem Vestfirðingar segja. En þeir segja svo frá að Halla hafi lagt lag sitt við ótíndan þjóf, heldur Arnes en Abraham, og eftir að þau höfðu drekkt pilti nokkrum sem var hjá hjónunum niður um ís á Hrafnfirði hafi þau strokið burtu frá börnum sínum ungum. Vildi þá Halla brenna bæinn, en Eyvindur ekki, og fórst það illvirki svo fyrir. Dóttir þeirra ein sem Ólöf hét hljóp til næsta bæjar og sagði frá hvernig komið var og því varð börnunum bjargað, en þau Eyvindur hlupu á fjöll með ýmsa búshluti og áhöld og ólu eftir það aldur sinn í útlegð um tuttugu ár og fluttu byggð sína æ lengra austur og norður eftir landinu í óbyggðum, og skal hér nú segja fátt eitt frá þeim bústöðum þeirra.

Eftir að þau Eyvindur lögðust út varð þeirra fyrst vart á Hveravöllum fyrir vestan Kjalveg á Auðkúluafrétt. Gerði Eyvindur þar skála og hlóð upp einn hverinn sem sézt hafa merki til fram á vora daga; í hvernum suðu þau mat sinn. Þar var með þeim Arnes útileguþjófur sem fyrr var nefndur. Á þessum stöðvum héldu þau sig þegar þeir félagar stálu eina haustnótt vistum og ýmsu öðru úr skemmu eða útihúsi frá Magnúsi bónda í Gilhaga í Skagafjarðardölum. Var þeim veitt eftirför, en náðust ekki, og sást ekkert eftir af þeim nema einhverjar menjar þess að þeir hefðu áð langt frá byggð. Í öðru sinni ætluðu þeir félagar að ræna ferðamenn sem fóru með skreiðarlest norður Kjöl; var það fulltíða maður og unglingspiltur. Maðurinn varð svo hræddur að hann skalf og sýndi enga mótvörn, en pilturinn greip klaufhamar, sló á kinn Arnesi og kjálkabraut hann; bar Arnes það merki síðan til dauðadags. Síðan sló pilturinn til Eyvindar, en hann sneri undan og þeir Arnes báðir, en hinir komust heilir til byggða.

Meðan þeir félagar voru á Hveravöllum sendi Eyvindur Arnes einu sinni ofan í Skagafjarðardali að ná sauðum til matar. Arnes fór og kom að beitarhúsi seinni hluta nætur. Hann var þrekvaxinn, meðalmaður á hæð og heldur íbyggilegur, sterkur að afli og áræðinn og hafði í þetta sinn öxi í hendi. Þegar Arnes er kominn að sauðahúsinu ber þar að smalann í sama bili; hann var mikill vexti og hafði varreku í hendi. Arnes vildi komast í húsið, en smalinn varð fyrri, komst fyrir dyrnar og varði Arnesi inngöngu. Sóttust þeir þar um stund; en svo lauk að smalinn sló öxina úr höndum Arnesi og dró hana að sér. Þegar Arnes var orðinn vopnlaus sneri hann undan og kom slyppur heim til Eyvindar aftur.

Það er frá Norðlingum að segja að þeim þykir illur gestur kominn á heiðarnar þar sem Eyvindur er; fóru þeir því að honum og gerðu forða hans upptækan, en það voru fimmtíu sauðarföll, og var þeim svo haganlega fyrir komið í hrískesti einum að annað lagið var af keti, en annað af hrísi. Norðlingar tóku föllin og allt sem þeir fundu þar fémætt fleira, en eyddu hreysið til grunna. Þeir Eyvindur og Arnes sluppu undan, hinn fyrrnefndi á handahlaupum, en Halla náðist og var flutt til byggða. Þá var og með Eyvindi Abraham þjófur; honum náðu Norðlingar og hengdu hann á gálga á Hveravöllum; því kvað Samson skáld í háðvísu um mann einn að sál hans mundi fara

„Abrahams í opið skaut
upp á Hveravöllum.“

Veturinn næsta eftir áttu þeir Eyvindur mjög örðugt uppdráttar og lifðu mest á rjúpnaveiðum. Litlu síðar er sagt að Halla hafi komið til þeirra aftur og fluttu þau þá byggð sína suður og austur í Arnarfellsmúla við Þjórsárdrög undir Arnarfellsjökli. Þar gerðu þau sér hreysi og er sagt að þau hafi hafzt þar við fjóra eða fimm vetur. Ekki fór betur að fyrir þeim Eyvindi á þessum stöðvum þegar fram í sótti en áður á Hveravöllum; því eitt sumar fóru tveir menn úr Ytrahrepp inn á afrétt til álftadráps og grasa. Hittu þeir Eyvind þar á slangri og þekktu hann en þótt hann lygi til nafns síns. Ekki fundu byggðamenn bústað Eyvindar í það sinn. Það sumar stálu þeir félagar af Hreppamannaafrétt svo miklu fé skömmu fyrir fjallsafn að um haustið þótti bændum ekki einleikið hversu illa heimtist og var því farið í eftirleit. Innst á afréttum komu þeir á fjárslóð mikla; hafði féð verið rekið austur sanda með Arnarfellsjökli og röktu þeir slóðirnar allt að hreysi Eyvindar. Urðu þjófarnir þá naumt fyrir; því þeir voru að lesa húslestur þegar byggðamenn komu að þeim. Eyvindur varð þá skjótur til bragðs, greip pott þeirra og ýms áhöld önnur og sökkti niður í fen eitt svo hinir fundu ekki, og öll sluppu hjúin úr höndum byggðamanna upp á jökulinn. Sveitamenn létu greipar sópa um híbýli Eyvindar og fannst þeim mikið um hversu haglega ýms búsáhöld voru tilbúin; þar tóku þeir körfur sem Eyvindur hafði riðið af tágum með svo mikilli list að þær voru vatnsheldar. Þeir fundu þar og viðarköst stóran og áttatíu sauðarföll í og eins vel frá gengið eins og fyrr er sagt um köstinn á Hveravöllum. Það sem eftirleitarmenn gátu ekki flutt með sér til byggða lögðu þeir eld í og brenndu upp til kaldra kola.

Það er ekki líklegt þó sumir segi svo frá að þau Eyvindur hafi látið fyrirberast á Hveravöllum þenna vetur næsta eftir; því kunnugt mátti honum vera hvernig var að vera þar allslaus. Hitt er trúlegra að hann hafi þá sem stundum endrarnær leitað hælis hjá Jóni bróður sínum í Skipholti, og ætla flestir að þau Halla bæði hafi verið geymd þar í skreiðaskemmu um veturinn. Grun höfðu menn á því að Jón bóndi flytti miklu meiri ull í kaupstað en líkindi voru til að hann ætti af fé sínu og eins hitt að hann hafði enga gangskör gert að því að leita að feitum hesti sem honum hvarf um þetta leyti. Þegar Eyvindur fór aftur til fjalla eftir þenna vetur ætla menn að bróðir hans hafi birgt hann að nauðsynlegum búsáhöldum, og settist Eyvindur þá að í Eyvindarveri eða Eyvindarkofaveri norður undir Sprengisandi, vestanvert við veginn fyrir austan Þjórsá, en móts við Arnarfellsver.

En áður en lengra er komið frá hinum fyrri stöðvum Eyvindar verður að segja hér þá sögu að einhverju sinni meðan hann var á Hveravöllum eða undir Arnarfelli er sagt að hann hafi farið að kynna sér leiðir um fjöll og jökla; fór hann þá um Langajökul og varð fyrir honum dalur í jöklinum grasi vaxinn. Ofarlega í dalnum sá hann hvar maður fór og rak fjárhóp á undan sér. Eyvindur gekk til hans og heilsaði honum. Hinn tók kveðju hans og heldur þurrlega. Eyvindur spurði hvert hann ætlaði. Hinn sagðist reka heim búsmala til mjalta. Eyvindi leizt maðurinn illmannlegur, brá þó á glens við hann og bauð honum til glímu og tók hinn því ekki fjarri. Glímdu þeir svo um stund og fann Eyvindur það að hann mundi ekki hafa afl við hann; þó fóru svo leikar að Eyvindur felldi dalbúann. Smalinn stóð skjótt upp aftur og sagði: „Ekki mundir þú fella bróður minn svo fljótt ef þið ættuzt við.“ Eftir það gengu þeir heim undir bæinn og ráku féð á stöðul. Kom þá kona frá bænum og bar skjólur á handlegg sér. Smalinn kvíaði svo féð, en konan fór að mjólka. Eyvindur heilsaði konunni og tók hún ekki kveðju hans meðan smalinn var á kvíabólinu; en þegar hann var genginn heim bað Eyvindur hana að gefa sér mjólk að drekka. Hún tók þá tóma skjólu, mjólkaði í hana eina ána og rétti honum. Eyvindur tók við, drakk lyst sína, þakkaði stúlkunni fyrir og sagðist hafa fengið nægju sína af ærnytinni. Stúlkan tók þá undir við hann og sagði honum að bóndi væri heima og tveir bræður smalans og ef þeir næðu honum mundi hann ekki fleiri ferðir fara. Meðan þau töluðust við var Eyvindur að laga skó sinn á kvíaveggnum; en í því varð honum litið við og sá hvar þrír menn komu hlaupandi frá bænum og stefndu til kvíanna. Eyvindur bíður þá ekki boðanna, tekur til fótanna og hleypur á brekkuna þvert upp úr dalnum. Þegar hann var kominn upp á dalbrúnina eru hinir komnir nærri honum; sér hann þá að skammt er orðið í milli og svo búið muni ekki duga. Brá hann nú fyrir sig handahlaupum og dró langt undan. Þegar dalbúar sjá það veita tveir þeirra honum eftirför á handahlaupum, en hinn þriðji sneri aftur; gat Eyvindur þess til að það mundi hafa verið karlinn faðir þeirra bræðra. Nú eltu þessir tveir Eyvind, en hann dró æ lengra undan þeim eftir jöklinum þangað til fyrir honum varð jökulsprunga. Þar stökk Eyvindur yfir með því um lífið var að tefla. Var hann þá ákaflega móður svo hann fleygði sér niður hinumegin sprungunnar meðan hann kastaði mæðinni. Þegar hinir komu að sprungunni þorðu þeir ekki að hlaupa yfir hana enda mun þeim hafa litizt Eyvindur til alls búinn hinumegin. Þar skildi með þeim og báðu hvorugir vel fyrir öðrum. Ekki er þess getið að Eyvindur hafi endrarnær komizt í jafnmikla hættu sem nú var sagt þó hann ætti rjár við aðra útilegumenn og þess sé getið að hann hafi gengið í sveit með þeim, en jafnan var hann gerður rækur frá þeim fyrir hvinnsku sakir.

Nú er þar til að taka sem Eyvindur settist að í Eyvindarveri inn af Holtamannaafrétti í Rangárvallasýslu, norður undir Sprengisandi. Þar gerði Eyvindur sér skála og sér enn merki til vestanvert við Sprengisandsveg. Skálatóftin er mjög fallin í sjálfa sig, en uppsprettuvatn rennur út undan henni á þrjá vegu og er vatnsrásin sem til útnorðurs rennur full af hrossbeinum sem auðsjáanlega hafa verið höggvin í spað, og nokkuð af fuglabeinum. Kindabein hafa og fundizt þar. Á þessum stöðvum er sagt að þau Eyvindur hafi alið lengst aldur sinn í útlegðinni. Annað hreysi er og sagt að Eyvindur hafi átt fyrir austan Þjórsá; þar er og kenndur við hann Eyvindarsandur.

Eitt af því sem flestum sögnum fer um í sögu Eyvindar er það hvort hann hafi náðst eða þá hvað oft af byggðamönnum. Sumir segja að hann hafi aldrei náðst og forðað sér jafnan á handahlaupum, en Halla hafi oft náðst, einkum þegar hún var vanfær, og hafi hún jafnan sloppið aftur þegar hún varð léttari. Aðrir segja að Eyvindur hafi oft náðst, en þó ætíð sloppið aftur.1 Þannig getur þess í Árbókum að Björn sterki fór með annan mann og hitti þau Eyvind; tók Björn Eyvind og batt hann; en Halla fékkst á meðan við fylgdarmann hans, kom honum undir og ætlaði að bíta hann á barkann. Björn kom að í því og tók Höllu; voru þau síðan flutt á milli sýslumanna.2 En aftur ætla menn að þau Eyvindur hafi sloppið og komizt á sömu stöðvar.

Sagt er að Eyvindur væri hinn mesti aflamaður og viðaði vel að á sumrum, en þó varð stundum vorljótt hjá honum. Einu sinni meðan Eyvindur var í hreysinu undir Sprengisandi voru þau komin í opinn dauðann af bjargarleysi og hungri, því þau höfðu lítið haft til viðurværis nálega í viku. Á páskadagsmorguninn, því þetta var vikuna fyrir páska, sagðist Eyvindur ætla að lesa húslesturinn í Vídalíns postillu og verða þá heldur hungurmorða að því búnu en að ólesnu, en Halla sagði sig gilti einu hvort væri, þau mundu lítið seðjast á lestrinum. Fór svo Eyvindur að lesa. En þegar hann hafði lokið lestrinum sjálfum og var kominn aftur í mitt faðirvor heyrðu þau að rjálað var við kofahurðina. Þegar Eyvindur var búinn að lesa fór hann til dyra og lauk upp; sá hann þá eldishest sílspikaðan standa undir kofaveggnum. Eyvindur tók hestinn og drap og lifðu þau á honum þangað til annað fékkst; en fyrst í stað er sagt þau hafi étið hann hráan því þau væru þá eldiviðarlaus. En svo stóð á hesti þessum að Einar bóndi Brynjólfsson á Barkarstöðum í Fljótshlíð hafði keypt hann, sumir segja árinu áður, en aðrir fyrir mörgum árum, norðan úr Bárðardal eða Eyjafirði og hafði stríðalið hann um veturinn. En á laugardaginn fyrir páska var hestinum hleypt út til að vatna honum og lofað að leika sér; kom þá að honum strok svo honum varð ekki náð, en förin röktu menn eftir hann norður í óbyggðir, og þannig komst klárinn á vald Eyvindar.

Þenna sama vetur er sagt að Eyvind dreymdi fyrir því að hann mundi finnast svo að hann færði hreysi sitt nokkru austar, og er það sagt að það hafi orðið honum til ógæfu; því hefði hann verið kyrr á sama stað mundi hann ekki hafa fundizt. Einar Brynjólfsson átti miklar eignir norður í Þingeyjarsýslu; fór hann því oft norður að heimta landskuldir og annast ábúð á þeim. Þá hafði Sprengisandur ekki verið farinn fjöldamörg ár og var talinn ófær. En sumarið eftir að Einar hafði misst reiðhestinn sinn dettur það í hann að ríða norður Sprengisand. Kom þá Einar Eyvindi mjög á óvart og hittu þeir Einar hann við húsagerð. Gafst Eyvindur þá upp með góðu og var bundinn, en Halla varðist þeim með pálnum og náðist þó í bönd að lyktum. Þar þekkti Einar í hreysi Eyvindar hána af reiðhesti sínum. Síðan flutti Einar og félagar hans þau Eyvind norður að Reykjahlíð við Mývatn. Þar voru þau höfð í haldi nokkra stund og þótti öllum gott að skipta við Eyvind, en allt lakara við Höllu því hún var harðleikin við börn og vesalmenni.

Það var einn sunnudag um sumarið sem messað var í Reykjahlíð, en kirkjan stendur nokkuð frá bænum, umgirt af hrauni á alla vegu, að Eyvindur beiddist að mega hlýða messu því hann virtist trúrækinn, en Halla sinnti því ekkert, og var honum leyft það. Eyvindur settist í krókbekk og ætluðu menn að ekki þyrfti að gæta hans um messutímann; en annars gættu hans venjulega tveir menn. En meðan prestur tónaði guðspjallið og allir höfðu auga á honum, en enginn á Eyvindi, hvarf hann úr kirkjunni og var ekki gáð að leita hans fyrr en messugjörð var úti. En þá var skollin á níðmyrkursþoka svo varla sá manna skil. Þessi þoka stóð í dagstæða viku. Síðan kalla Mývetningar hverja níðmyrkursþoku Eyvindarþoku. Lengi var leitað að Eyvindi og kom fyrir ekki; en svo sagði hann sjálfur frá síðar að hann hefði falið sig í hraunkambi þeim sem næstur er kirkjunni á meðan leitin var áköfust. Það datt eingum í hug og leituðu menn langt yfir skammt.

Veturinn næsta eftir að Eyvindur hvarf frá Reykjahlíð hafðist hann við í Herðubreiðarlindum eða Herðubreiðartungum og sér þar enn merki til hreysisins. Það er grjótbyrgi hlaðið meðfram gjávegg, rífan faðm á lengd hér um bil og hálfan faðm á breidd. Hrosshrygg hafði hann fyrir mæniás í kofanum og var dregin tág eftir endilöngu mænuholinu til að halda honum saman; síðan var þakið yfir með melju. Í dyrunum var hella svo vel felld að eins var og heflað væri. Vatnslind bunaði fram úr berginu sem hreysið var hlaðið við og féll niður rétt hjá fleti hreysisbúans. Svo haglega var búið um vatnsból þetta að ekki þurfti annað en seilast úr rúmfletinu, lyfta upp hellu sem faldi lindina og sökkva ílátinu í. Sprekaköstur stór var við hreysið og ætla menn að Eyvindur hafi geymt í honum vetrarforða sinn. Er svo haft eftir Eyvindi að þann vetur hafi hann átt einna verstan í útlegð sinni; því ekki var annað á að lifa en hrátt hrossaket og hvannarætur sem nóg er af í Herðubreiðarlindum. Er svo sagt að Eyvindur hafi stolið sjö eða níu hrossum af austurfjöllum um haustið, en sauðfé var hvergi að fá í nánd. Engin merki sjást til þess að Eyvindur hafi eldað við hreysið.

Eftir hvarf Eyvindar var Halla flutt vestur á sveitir. En um veturinn að áliðnu kom hann einn sunnudag ofan að Vogum við Mývatn. Fólk var þaðan allt við messu nema ein kerling og bað hann hana um mat og skó; því hann lézt vera langferðamaður og vera orðinn skólaus, en bauðst til að lesa lesturinn fyrir kerlingu í staðinn. Kerlingu grunaði ekkert og veitti honum það sem hann mæltist til. Þegar Eyvindur var búinn að lesa spurði hann vandlega eftir Höllu og hvað um hana hefði orðið svo og um Eyvind og hverjum getum væri leitt um hvarf hans. En kerling leysti úr öllu sem hún vissi bezt. Eftir það fór Eyvindur burtu áður en fólk kom frá kirkju. Er þá sagt að hann færi vestur á eftir Höllu og næði henni aftur til sín, og ætla menn að þau hafi þá haldið til um stund á Jökuldalsóbyggðum. Þar eru nefnd Eyvindarfjöll og er sagt að þau séu kennd við hann.3

Fjalla-Eyvindur hafðist við um hríð á Fljótsdalsheiði og lagðist á fé Fljótsdælinga. Tóku þá Fljótsdælingar sig til og ætluðu að flæma Eyvind burtu; eltu þeir hann á hestum, en hann brá á handahlaup, og dró hvorki sundur né saman. Festust hestar byggðamanna í keldu einni sem er hér um bil á miðri heiðinni og þar skildi með þeim Eyvindi og byggðamönnum. Kelda þessi hefur síðan verið kölluð Eyvindarkelda og er hún næsta ill yfirferðar. Þegar Eyvindur var þar eystra segir sagan að smalann á Brú á Jökuldal hafi einu sinni vantað af kvífénu nokkrar ær; fór hann því og leitaði langt fram á öræfi. Kom hann þá að gili einu og gekk með því um stund þangað til hann sá kofa niður í gilinu og konu úti sem mjaltaði ær í kvíum. Hundur var með smalamanni og gelti; við það leit konan upp. Varð þá smalamaður hræddur og hljóp sem fætur toguðu til byggða. Brugðu bændur skjótt við og fóru saman fjölmennir þangað sem þeim var til vísað; þeir fundu gilið og sáu þar merki til mannavistar; en gilbóndinn var þá allur á burtu.

Eftir að Eyvindur komst aftur til byggða er það haft eftir honum að hvergi hafi sér vegnað betur í útlegðinni en á meðan hann var í Eyvindarveri (Þjórsárverum); því auk þess sem hann tók fé af afréttum hafði hann þar mikið álftadráp og gæsa og hljóp þær uppi meðan þær voru sárar og gat þar að auki hagnýtt sér silungsveiði sem sögð er óþrjótandi í Fiskivötnum þó þau séu æði langt burtu. Þó sagði Eyvindur að frostvindar væru stundum svo harðir á Sprengisandi að þar væri ekki líft úti fullröskum manni og vel klæddum. Því er trúlegra að hann hafi sagt að hann vildi engum svo illa að hann gæti óskað honum ævi sinnar en hitt sem einnig er haft eftir honum að hann ætti ekki svo argan óvin að hann vildi vísa honum á vesturöræfi, en á austuröræfi vildi hann vin sínum vísa. Haft er það og eftir þeim Eyvindi og Höllu að þau hafi átt börn saman í útlegðinni og að hún sæi fyrir þeim öllum, en Eyvindur hafði ekki getað komið þar nærri á meðan Halla var að farga þeim. Mest hafði honum þótt fyrir að missa eitt barnið; það var stúlka, komin á annað ár. Höfðu þau ætlað að láta hana lifa, en þá komu byggðamenn snögglega að þeim svo þau urðu að forða sér og gátu ekki komið barninu með sér, en Halla hafði aðeins ráðrúm til að fleygja því fram af björgum.

Almenn sögn er það að þau Eyvindur hafi verið um tuttugu vetur í útlegð og orðið þá friðhelg aftur, og segja Grunnvíkingar að þau hafi komizt aftur að sömu jörðinni (Hrafnfjarðareyri) sem þau struku frá á Vestfjörðum og þar hafi þau dáið og séu grafin í mýri einni nálægt bænum. Þar var séra Torfa Magnússyni sem var prestur á Stað í Grunnavík (1822–41) sýnt leiði þeirra margupphlaðið.4 Þó ber ekki öllum saman um það að Halla hafi dáið á Hrafnfjarðareyri því sú er sögn um hana á Suðurlandi að þegar hún gafst upp seinast eða náðist hafi hún verið orðin svo farin að ekki hafi þótt fært að halda henni í tugthúsinu; hafi hún því fengið að hafast við á koti einu uppi í Mosfellssveit. Þar var hún nokkurn hluta sumarsins. En um haustið var einhvern dag glaða sólskin og blíða með hægri kælu; sat Halla þá úti undir bæjarvegg og sagði: „Fagurt er á fjöllunum núna.“ Nóttina eftir hvarf hún og fannst hvergi. Nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum (Árnesingar segja upp undir Skjaldbreið enda hafi Halla átt heima á einhverjum bæ í Grafningi eða Þingvallasveit) og tveir sauðarræflar hjá sem hún hafði krækt á hornunum undir styttuband sitt. Ætluðu menn að það væri lík Höllu og hefði hún ætlað að strjúka á fjöll, en orðið þarna til með því veður hafði spillzt rétt á eftir að hún hvarf.

Af handbragði Eyvindar er helzt getið pálblaðs og rekuvars sem Þingeyingar fundu eftir næstliðin aldamót í vatnsrás einni hjá hreysi hans í Eyvindarveri; fluttu þeir hvort tveggja heim með sér norður og höfðu til sýnis og þótti afbragðs vel frá því gengið. Hinn þriðji hlutur eftir hann var karfa ein sem til var í Odda á Rangárvöllum á dögum Gísla prófasts Þórarinssonar og höfð handa börnum til að láta þau læra að ganga í og þótti snillilega riðin.


1 Einu sinni þegar þau hjónin náðust og Arnes með þeim er sagt að þau hafi öll verið dæmd í tugthúsið í Reykjavík, hafi þau þó sloppið Eyvindur og Halla, en Arnes var fluttur suður og var í tugthúsinu um hríð og var hafður þar í miklum metum hjá hinum sakamönnunum og jafnvel hjá yfirmönnunum sjálfum. Arnes var dylgjafullur og dulur og hafði það í skopi að helsingjar flygju af landi burt á vetrum, en vildi þó ekki segja hvar þeir hefðust við. Seinna komst Arnes úr tugthúsinu og varð niðursetningur og dó þannig í Engey 7. september 1805 og hafði þá einn um nírætt. En hvenær þeir Eyvindur og Arnes hafi slitið félag sitt eða hvernig það hafi atvikazt kunnum vér ekkert frá að segja.

2 Árbækur Espólíns, XI, 10. bls.

3 Það er þó ekki satt eftir því sem kunnugir menn úr Múlasýslu hafa sagt, því þau eru kennd við Eyvind þann sem Hrafnkell Freysgoði drap í skarðinu milli fjallanna.

4 Vissara mun að trúa því sem Íslendingur [1861] segir um legstað þeirra Eyvindar og Höllu í Staðarkirkjugarði í Grunnavík.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 237–245.

© Tim Stridmann