Grímur biskupsfóstri

Einhvern tíma var harðæri mikið fyrir norðan land. Tókst þá umferð svo mikil af snauðum mönnum að til vandræða horfði. Helstu menn gjörðu það því til lögvenju á þingi nokkru að hver bóndi sem gæti skyldi veita snauðum mönnum húsaskjól og gefa þeim mat næturlangt, en svo skyldu þeir brott fara og ekkert fá með sér. Í þessu harðæri kom fjöldi snauðra manna að Hólum í Hjaltadal og var þar fylgt sömu reglu sem annarstaðar.

Eitt kvöld kom þar piltur einn sem Grímur hét og fékk gistingu. Daginn eftir hugði hann ekki á brottferð. Gekk hann þá á fund biskups og sagði honum að síðan hann hefði komist á að vera eina nótt langaði sig enn meira til að vera aðra.

Lauk svo tali þeirra að biskup lét eftir honum að vera enn þá nótt. En daginn eftir bjóst Grímur ekki brott heldur og gekk hann enn á fund biskups og skoraði á hann með hina þriðju nótt. Biskup vitnaði þá til samnings þess er hinir helstu menn hefðu gjört með sér, en Grímur kvað þann samning þegar rofinn fyrst hann hefði verið þar tvær nætur.

Biskup nennti þá ekki að reka Grím burt með hörðu. Varð það úr að hann ílentist á Hólum og ólst þar upp. Gjörðist hann smiður mikill og varð hann staðarsmiður. Mjög þótti hann harður, óþýður og einrænn í skapi, og vildu allir eiga sem fæst við hann. Liðu nú nokkur ár svo Grímur var orðinn fulltíða; var hann hraustur að afli.

Einn jóladag fékk biskupinn á Hólum bréf frá biskupinum í Skálholti; voru áríðandi leyndarmál í því, en þó hafði það legið lengur en til var ætlast því biskup kvað sér allt við liggja að vera búinn að koma svari í Skálholt fyrir nýjárið.

Leitaði hann á ýmsa að bera bréf þangað suður, en enginn treystist um það leyti að fara skemmsta veg yfir fjöll og vera kominn svo snemma í Skálholt. Að síðustu skoraði biskup á Grím og kvaðst því heldur ætla upp á liðsinni hans sem hann hefði fyrr sýnt honum liðsinni.

Grímur kvað biskup ekki heldur þurfa að telja mat eftir sér en sig vinnu eftir biskupi; „en fyrst þér er þetta svo mikið kappsmál þá hafðu bréf þín tilbúin annað kvöld, en leðurskó mína og nesti í kvöld“.

Biskup gjörði nú svo. Grímur sló þunnt járn neðan á skóna og hafði smágadda neðan í; líka hafði hann skauta og skíði til ferðarinnar. Hvarf Grímur af staðnum þegar um nóttina er hann hafði tekið við bréfinu um kvöldið.

Fór hann sem leiðir lágu skemmst, neytti skautanna á ísum, en skíðanna á fönnum, og sóttist leiðin honum furðanlega fljótt.

Kom hann á vatn eitt mikið er sumir ætla verið hafi Hvítárvatn og fór eftir því á skautum. Þegar hann var nærri kominn yfir vatnið sá hann mann vera að veiða á dorg á ísnum, en þegar hann sá Grím hljóp hann í veg fyrir hann. Grímur staðnæmdist þar sem ísinn var glærastur og hálastur, og beið þar komumanns og leysti af sér skautana.

Réði maðurinn á Grím án þess nokkuð yrði af kveðjum. Sótti hann fast að honum, en varð óhægra að standa á ísnum en Grími járnuðum. Felldi Grímur útilegumanninn að lyktum, brá skálm undan stakki sínum er hann hafði smíðað til ferðarinnar og drap hann. Síðan hélt hann áfram og fór þá að styttast suður af. Létti hann ekki fyrr en hann kom í Skálholt og var það degi fyrir gamlaársdag.

Grímur gjörði orð fyrir biskup að hann vildi finna hann, en fékk þau orð aftur að biskup sæti yfir borðum og að hann væri beðinn að bíða á meðan.

Grímur gjörði honum þau orð aftur að hann vildi ekki bíða, því sín væri ekki meiri þágan en hans. Biskup var óvanur þessum svörum, stígur þó undan borðum, strýkur skeggið og finnur Grím. Skilaði hann bréfinu og kvaðst vilja fá svar degi síðar.

Seinna um daginn lét biskup kalla Grím fyrir sig og mælti: „Ég sé það af dagsetningu bréfanna að þú ert maður fljótur í ferðum og sýnist mér þú mega hvílast hér fram yfir nýjár.“

Því tók Grímur fjærri. Biskup kvað hann þá ráða skyldi. Morguninn eftir afhenti biskup sjálfur Grími bréf og spurði hvort hann ætlaði sömu leið til baka; hann játti því.

„Þá verður þú drepinn,“ segir biskup.

„Ég á það þá á hættu,“ segir Grímur.

Biskup mælti: „Þiggðu þá hund þennan.“

„Það vil ég gjarnan,“ segir Grímur.

Skipaði þá biskup mórauðum rakka einum miklum, er fylgdi honum, að fylgja Grími. Hundurinn nam staðar og starði á biskup, en hann ítrekaði skipun sína harðar en fyrr. Stundi rakkinn þá við og lagði sig að fótum Gríms.

Grímur þakkaði biskupi greiða og hélt af stað. En þegar hann kom að vatninu aftur sá hann hvar þrír menn komu hlaupandi; fór einn langharðast og einn seinast. Grímur náði þó vatninu og hljóp eftir því um stund til að toga þá enn meira hvern frá öðrum. Þó sá hann að hann mundi ekki draga undan, og staðnæmdist hann á ísnum þar sem hann var hálastur.

Var þá hinn fyrsti þegar kominn og mælti: „Þú hefur drepið bróður minn og skal nú hefna þess.“

Grímur kvað það hæfilegt. Það fann Grímur að ekki hafði hann afl við þessum manni, en hundurinn hljóp líka á hann og reif hann á hol. Hinn bróðirinn kom þá að og fóru leikar eins með hann og hinn fyrri.

Seinast kom gamali maður er var faðir þeirra bræðra. Hann bauð Grími sættaboð og kvað hann skyldi koma með sér og eiga dóttur sína.

Grímur kvað honum sæmra að fylgja sonum sínum, kvað hann mundi sitja á svikráðum við sig og vilja sæta færi. Þessi orð stóðst karl ekki og réði á Grím; hafði hann sig lausan við og varðist Grími með annari hendi, en hundinum með hinni, og þóttist Grímur í fyrstu hafa ærið að vinna að verjast. En þar kom að karl mæddist og gat Grímur loks unnið á honum með styrk hundsins.

Síðan fór Grímur norður að Hólum; var hann þar svo harður í skapi um veturinn að fáum þótti við vært. Um vorið eftir sumarmál urðu menn þess varir að biskup og Grímur sátu lengi á eintali; líka vissu fáir hvað Grímur smíðaði um veturinn nema hvað öxi nýsmíðuð sást hjá honum, mikil og biturleg.

En eftir fardaga fór hann að heiman frá Hólum ríðandi með hest í taumi og reiddi kistur á honum; vissu menn ekki hvert hann ætlaði, en aldrei hefur hann sést síðan.

Á elliárum sagði Hólabiskup vinum sínum hvernig staðið hefði á hvarfi Gríms og að sér hefði þótt það best úr því sem komið var að láta hann sjálfráðan og sleppa honum.

Nokkrum árum eftir þennan atburð og hvarf Gríms var það haust eitt að biskupinn í Skálholti lá í sæng sinni milli svefns og vöku. Þótti honum þá maður koma á herbergisgluggann og segja: „Gakktu í dag til sauðhúsanna þinna; þar er lítilfjörlegt þakklæti fyrir hundinn þinn.“

Biskup var að velta því í huga sér hvort þetta hefði verið í vöku, en stundum lá við hann hlægi að grun sínum og héldi þetta hefðu verið draumórar. Þó gat hann ekki stillt sig að ganga til fjárhúsanna eftir hádegið. Fann hann þar þá stórt hundrað sauði er voru blóðmarkaðir marki biskups og allir gamlir. Sauði þessa lét biskup skera og er mælt hálfur þriðji fjórðungur mörs hafi verið í hverjum sauð og síðan þverhandar þykk.

© Tim Stridmann